Fyrsti leikurinn í Laugardalshöll í tvö ár

Langt er um liðið síðan íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik spilaði …
Langt er um liðið síðan íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik spilaði síðast í Laugardalshöllinni. Haraldur Jónasson/Hari

Á föstudagskvöld mun í Laugardalshöll fara fram fyrsti keppnisleikurinn í rétt rúmlega tvö ár þegar Ísland mætir Georgíu í undankeppni HM 2023 í körfuknattleik karla.

Síðasti keppnisleikur sem fór fram þar var leikur Íslands og Litháens í undankeppni EM í handknattleik karla, sem fór fram þann 4. nóvember 2020.

Skömmu eftir þann leik varð vart við svæsinn vatnsleka sem gereyðilagði keppnisgólfið og hluta áhorfendastúkunnar.

Eftir það var keppnishöllin notuð fyrir fjöldabólusetningar vegna kórónuveirunnar og hafa lagfæringar, sem fólu meðal annars í sér að skipta um keppnisgólf og stóran hluta áhorfendastúku, gengið hægt eftir það.

Á föstudaginn fær hins vegar íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik það georgíska í heimsókn og verður fróðlegt að sjá hvort Laugardalshöll muni koma til með að reynast Íslandi jafnvel og Ólafssalur á Ásvöllum gerði til bráðabirgða, þar sem allir leikir liðsins unnust.

Með sigri gegn Georgíu getur Ísland komið sér í afar vænlega stöðu í undankeppni HM þar sem liðið hefur aldrei verið jafn nálægt því að tryggja sér sæti á heimsmeistaramóti og nú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert