Craig Pedersen, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í körfuknattleik, hefur skrifað undir nýjan samning við Körfuknattleikssamband Íslands, KKÍ. Það hafa aðstoðarþjálfarar hans, Hjalti Þór Vilhjálmsson og Baldur Þór Ragnarsson, sömuleiðis gert.
Nýir samningar þremenninganna eru til tæplega þriggja ára; gilda fram yfir EuroBasket 2025 sem fer fram um haustið það ár.
Pedersen, Hjalti Þór og Baldur Þór skrifuðu undir samningana að lokinni æfingu landsliðsins í Laugardalshöll skömmu fyrir hádegi í dag.
Pedersen hefur verið landsliðsþjálfari Íslands frá því í mars árið 2014.
Liðið undirbýr sig nú fyrir tvo mikilvæga leiki á lokastigi undankeppni HM 2023. Fyrst mætir Ísland liði Georgíu á föstudagskvöld í Laugardalshöll og svo Úkraínu í Riga í Lettlandi á mánudag.
Með góðum úrslitum í leikjunum tveimur getur Ísland færst nær því að tryggja sér sæti á heimsmeistaramóti í fyrsta sinn í sögunni.