Skoraði 40 stig í sigri meistaranna

Darius Garland reynir að stöðva Steph Curry í nótt.
Darius Garland reynir að stöðva Steph Curry í nótt. AFP/Thearon W. Henderson

Steph Curry fór fyrir ríkjandi NBA-meisturum Golden State Warriors þegar hann skoraði 40 stig í 106:101-sigri á Cleveland Cavaliers í deildinni í nótt.

Golden State hefur farið rólega af stað á tímabilinu og sigurinn því kærkominn, en hann var sá fimmti í 12. leiknum.

Cleveland hefur litið vel út á tímabilinu með Donovan Mitchell í fararbroddi, en hann skoraði 29 stig, tók tíu fráköst og gaf níu stoðsendingar fyrir liðið.

Cleveland hefur unnið átta af 12 leikjum sínum til þessa.

Boston Celtics hafði betur gegn Denver Nuggets, 131:112, þar sem hinir öflugu Jayson Tatum og Jaylen Brown fóru einu sinni sem áður fyrir Boston.

Tatum skoraði 34 stig og tók átta fráköst og Brown skoraði 25 stig, tók átta fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Serbinn skemmtilegi, Nikola Jokic, var stigahæstur hjá Denver með 29 stig auk þess sem hann tók átta fráköst.

Þá tapaði LA Lakers enn einu sinni er liðið fékk nágranna sína í Sacramento Kings í heimsókn.

DeAaron Fox skoraði 32 stig fyrir Sacramento og tók einnig sjö fráköst og gaf 12 stoðsendingar.

Anthony Davis var stigahæstur í liði Lakers með 24 stig og tók hann 14 fráköst að auki.

LeBron James lék ekki með Lakers vegna meiðsla.

Alls fóru átta leikir fram í NBA-deildinni í nótt.

Öll úrslit næturinnar:

Golden State – Cleveland 106:101

Boston – Denver 131:112

LA Lakers – Sacramento 114:120

Orlando – Phoenix 114:97

New York – Detroit 121:112

Oklahoma – Toronto 132:113

San Antonio – Milwaukee 111:93

Memphis – Minnesota 114:103

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert