Spánn á HM eftir sigur á Hollandi

Spánverjar tryggðu sér sæti á HM 2023 í kvöld.
Spánverjar tryggðu sér sæti á HM 2023 í kvöld. AFP/Tobias Schwarz

Spænska karlalandsliðið í körfuknattleik tryggði sér í kvöld sæti á HM 2023 í Indónesíu, Japan og Filippseyjum með því að hafa betur gegn Hollandi, 84:72, í L-riðli lokastigs undankeppninnar, sem er riðillinn sem Ísland leikur í.

Mikið jafnræði var með liðunum stærstan hluta leiksins en í fjórða og síðasta leikhluta sýndu Spánverjar mátt sinn og megin og unnu góðan 12 stiga sigur.

Fyrr í dag tryggði Ítalía sér sæti á HM með naumum sigri á Georgíu í L-riðlinum og munu Ísland, Georgía og Úkraína keppa um þriðja sæti riðilsins sem gefur beint sæti á heimsmeistaramótið á næsta ári.

Keppni í tveimur öðrum undanriðlum er lokið þar sem er ljóst að Þýskaland, Finnland og Slóvenía fara áfram úr J-riðli og á HM og Frakkland, Litháen og Svartfjallaland fara áfram úr K-riðli og á mótið.

Lettland er þá búið að tryggja sér sæti á heimsmeistaramótinu með því að hafa betur gegn Bretlandi í I-riðlinum í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert