Karlaliði Hauka í körfuknattleik hefur verið dæmdur 20:0-sigur í leik liðsins gegn Tindastóli í 32-liða úrslitum VÍS-bikarsins þann 17. október síðastliðinn.
Tindastóll vann leikinn upphaflega 88:71 en körfuknattleiksdeild Hauka kærði framkvæmd leiksins þar sem of margir erlendir leikmenn Stólanna voru inni á keppnisvellinum á sama tíma á einum tímapunkti í honum.
„Með vísan til 2. mgr. gr. 8.5 í reglugerð KKÍ um körfuknattleiksmót skal kærandi, körfuknattleiksdeild Hauka, dæmdur sigur 0-20 í leik Tindastóls og Hauka sem fram fór á Sauðárkrók þann 17. október 2022.
Með vísan í 3. mgr. gr. 8.5 í reglugerð KKÍ um körfuknattleiksmót skal kærði, körfuknattleiksdeild Tindastóls, greiða sekt að fjárhæð kr. 250.000,“ sagði meðal annars í úrskurði aganefndar Körfuknattleikssambands Íslands.
Haukar eru þar með komnir áfram í 16-liða VÍS-bikarsins og mæta þar Njarðvík.