Robert Turner var stigahæstur hjá Stjörnunni þegar liðið vann dramatískan sigur gegn Hetti í framlengdum leik í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í MVA-höllinni á Egilsstöðum í 6. umferð deildarinnar í kvöld.
Turner skoraði 29 stig, tók níu fráköst og gaf fimm stoðsendingar en leiknum lauk með 92:89-sigri Garðbæinga eftir framlengdan leik.
Stjarnan var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddi með 14 stigum í hálfleik, 47:33. Bæði lið skoruðu 20 stig hvort í þriðja leikhluta og Garðbæingar voru því áfram með þægilegt forskot fyrir fjórða leikhluta. Staðan var hinsvegar jöfn að honum loknum.
Hetti tókst að minnka forskot Garðbæinga í þrjú stig á lokasekúndum framlengingar en lengra komust þeir ekki og Stjarnan fagnaði sigri.
Adama Darbo skoraði 15 stig og tók átta fráköst fyrir Stjörnuna en Timothy Guers var stigahæstur hjá Hetti með 25 stig, sjö fráköst og fjórar stoðsendingar.
Stjarnan er áfram í níunda sæti með sex stig, líkt og Höttur sem er í sjötta sæti.