Blikar geta komist einir á toppinn

Breiðablik hefur komið skemmtilega á óvart í vetur.
Breiðablik hefur komið skemmtilega á óvart í vetur. mbl.is/Óttar Geirsson

Fjórir leikir eru á dagskrá í Subway-deild karla í körfubolta í kvöld. Breiðablik, sem hefur komið skemmtilega á óvart í vetur, getur komist eitt í toppsætið er liðið mætir Tindastóli á útivelli.

Breiðablik og Valur eru jöfn á toppnum með tíu stig, en Valur leikur við Hött á morgun og getur Breiðablik því verið eitt á toppnum, til morguns hið minnsta. Tindastóll er í sjötta sæti með sex stig og getur komist nær efstu liðunum með sigri.

Í Breiðholti mætast ÍR og Þór frá Þorlákshöfn í botnslag. Eru liðin í tveimur neðstu sætunum, með aðeins tvö stig hvort, eins og KR. Þór vann óvænt sinn fyrsta leik í síðustu umferð gegn Keflavík, en ÍR hefur ekki unnið frá því í fyrstu umferð.

Deildarmeistarar Njarðvíkur og nýliðar Hauka eigast við í Njarðvík. Haukar hafa gert vel í endurkomu sinni í deild þeirra bestu og er liðið í fjórða sæti með átta stig. Njarðvík er í sætinu fyrir neðan, með tveimur stigum minna.

Loks mætast Stjarnan og Grindavík í Garðabæ. Bæði lið eru með sex stig, eins og þrjú önnur lið, um miðja deild og í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.

Leikir kvöldsins í Subway-deild karla í körfubolta:
18.15 Stjarnan – Grindavík
19.15 ÍR – Þór Þorlákshöfn
19.15 Tindastóll – Breiðablik
20.15 Njarðvík – Haukar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert