Þrír landsliðsmenn í körfuknattleik léku með liðum sínum í evrópsku deildunum í gærkvöld en aðeins einn þeirra var í sigurliði.
Kristinn Pálsson fagnaði sigri með Aris Leeuwarden sem vann Zwolle, 79:69, í BNXT-deildinni, sameiginlegri úrvalsdeild Hollands og Belgíu. Kristinn lék í 27 mínútur og skoraði 11 stig, tók 5 fráköst og átti eina stoðsendingu. Aris er í fjórða sæti í hollenska hluta deildarinnar en fimm efstu lið hvoru megin fara í úrslitakeppnina eftir áramótin.
Tryggvi Snær Hlinason og félagar í Zaragoza máttu sætta sig við tap gegn Bilbao á heimavelli, 67:74, í spænsku ACB-deildinni. Tryggvi lék í 11 mínútur, skoraði þrjú stig og tók fjögur fráköst. Zaragoza hefur aðeins unnið tvo af fyrstu níu leikjum sínum og er í fimmtánda sæti af átján liðum.
Hilmar Pétursson og félagar í Münster töpuðu á heimavelli gegn Paderborn, 58:69, í þýsku B-deildinni. Hilmar lék í 18 mínútur, skoraði 6 stig, átti 2 stoðsendingar og tók 2 fráköst. Münster er í 11. sæti af 18 liðum með fjóra sigra í fyrstu níu leikjunum.