Mjög stolt af okkur í dag

Hildur Björg, þriðja frá vinstri, sátt við sigurinn í leikslok.
Hildur Björg, þriðja frá vinstri, sátt við sigurinn í leikslok. Mbl.is/Óttar Geirsson

„Það var mjög gott að ná þessum sigri í dag,“ sagði Hildur Björg Kjartansdóttir, landsliðskona í körfubolta, í samtali við mbl.is eftir 68:58-sigur á Rúmeníu í undankeppni EM í Laugardalshöll í dag.

Leikurinn var mjög jafn, en íslenska liðið sigldi fram úr á lokakaflanum og tryggði sér tíu stiga sigur. Var það í eina skiptið sem tíu stigum munaði á liðunum.

„Við vorum ekki nógu ákveðnar framan af leik. Það vantaði að ná í körfurnar og ná í stigin. Við vorum í smá vandræðum með þessa stóru inn í teig, en svo leystum við þetta sem liðsheild. Ég er mjög stolt af okkur og frammistöðunni í dag.“

Ísland mátti þola naumt tap fyrir Rúmeníu í fyrri leik liðanna og var sigurinn í dag því enn sætari fyrir vikið. „Ég var ekki með í fyrri leiknum, en ég var með slæmt bragð í munninum eftir það. Okkur fannst við eiga að klára þann leik, svo það var mjög gott að klára þetta í kvöld.“

En hvað gerði Ísland á lokakaflanum til að sigla sigrinum í höfn?

„Við sýndum að við erum með sterka leikmenn og nýttum okkur reynsluna í liðinu. Við náðum í það sem við vildum,“ sagði Hildur, áður en hún viðurkenndi að það hafi verið erfitt að þurfa að sitja mikið á bekknum í dag vegna villuvandræða: „Það er miklu erfiðara en að spila. Ef ég dett út, kemur annar leikmaður í minn stað og þetta leystist vel í dag.“

Sigurinn var sá fyrsti hjá landsliðinu í þrjú ár, en Hildur segir liðið í dag vera að byggja grunn fyrir framtíðarlandsliðskonur.

„Við erum að byggja grunn fyrir framtíðina. Við erum ekki með marga leikmenn í atvinnumennsku. Vonandi, eftir 10-15 ár, verðum við að gera enn stærri hluti. Þótt við séum ekki að vinna marga leiki, þá er þetta mjög mikilvægt fyrir ákveðinn grunn til að byggja á,“ sagði Hildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert