Njarðvíkingar mættu Haukum úr Hafnarfirði í 16. liða úrslitum VÍS-bikarsins í kvöld. Leikurinn hafði verið færður hvað eftir annað vegna kærumála á milli Hauka og Tindastóls sem flestir þekkja. Úr varð að Haukar fóru áfram og spiluðu loks leikinn í kvöld. Leikurinn var hin mesta skemmtun þar sem liðin voru hnífjöfn á öllum tölum út leikinn ef skilin eru út þau áhlaup sem þau áttu á báða bóga. 88:84-heimasigur varð það svo á lokasprettinum þar sem vissulega allt hefði getað gerst. Njarðvíkingar báðu lukkudísum sínum í dans á lokasprettinum með því að klikka á heilum fjórum vítum til að loka leiknum og fengu Haukar vissulega sín tækifæri að koma sér í mögulega framlengingu. En allt kom fyrir ekki og Njarðvíkingar halda í 8-liða úrslit þar sem þeir rúlla yfir lækinn og mæta grönnum sínum úr Keflavík.
Fyrir leik hefðu líkast til flestir sett peninga sína á Haukasigur þetta kvöldið. Njarðvíkingar komu mjög laskaðir til leiks þar sem að Oddur Rúnar Kristjánsson var meiddur og Nacho Martín hafði ekki leikheimild, en hann kom til liðsins eftir upphaflega dagsetningu leiksins. Haukar voru nýbúnir að leggja meistaraefni Tindastóls í spennutrylli á Ásvöllum og komu til leiks fullir sjálfstrausts. Leikurinn sem slíkur bar óvænt þess merki að liðin ætluðu sér að einbeita sér eingöngu að því að skora meira en andstæðingurinn og varnarleikur var í algeru aukahlutverki. Með þunnskipaðan bekk hjá þeim grænklæddu hefði maður haldið að slíkur leikur myndi henta Haukum betur. En það var seigla í Njarðvíkingum þetta kvöldið og líkt og í leik liðanna fyrr í mánuðinum þá gekk það þannig að þegar Haukarnir virtust vera við það að koma sér í þægilega forystu skoruðu heimamenn grimmt og jöfnuðu leikinn.
Það munaði gríðarlega miklu að þeir Mario Matasovic og Rasio Lisandro, framherjar Njarðvíkur, mættu með sinn besta leik þetta kvöldið. Þá sér í lagi sá síðarnefndi sem hefur verið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína með liðinu fram að þessu. Rasio var stigahæstur Njarðvíkinga með 20 stig og hirti 11 fráköst. Maður leiksins var hins vegar Dedrick Basile hjá Njarðvíkingum en hann skoraði 17 stig, tók átta fráköst og sendi átta stoðsendingar. Hjá Haukum voru margir að spila bara nokkuð vel en Darwin Davis var þeirra stigahæstur með 24 stig.
8-liða úrslit verða leikinn á sunnudag eftir tæpa viku en þar á milli eru leikir á fimmtudag og föstudag. Njarðvíkingar virðast sem stendur í þeirri umferð að leika á föstudag en Keflvíkingar á fimmtudag og fá því auka dag til hvíldar fyrir þann mikilvæga leik. Má ætla að Njarðvíkingar ætli sér að reyna að færa sinn föstudagsleik yfir á fimmtudag þannig að liðin standi á jöfnum velli á næstkomandi sunnudag.
Gangur leiksins: 2:6, 11:15, 18:23, 27:27, 31:29, 36:36, 40:42, 52:51, 59:59, 63:61, 67:68, 72:73, 74:78, 78:81, 83:84, 88:84.
Njarðvík: Lisandro Rasio 20/11 fráköst, Nicolas Richotti 19, Dedrick Deon Basile 17/8 fráköst/8 stoðsendingar, Maciek Stanislav Baginski 14, Mario Matasovic 13, Logi Gunnarsson 3, Ólafur Helgi Jónsson 2/4 fráköst.
Fráköst: 22 í vörn, 8 í sókn.
Haukar: Darwin Davis Jr. 24, Daniel Mortensen 16/5 fráköst, Orri Gunnarsson 15/6 fráköst, Hilmar Smári Henningsson 15/7 fráköst, Norbertas Giga 11/11 fráköst, Alexander Óðinn Knudsen 2, Breki Gylfason 1.
Fráköst: 30 í vörn, 5 í sókn.
Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Ísak Ernir Kristinsson, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson.
Áhorfendur: 231.