Keflavík í undanúrslit eftir tvíframlengda spennu

Karina Konstantinova átti góðan leik fyrir Keflavík.
Karina Konstantinova átti góðan leik fyrir Keflavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Keflavík tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum VÍS-bikars kvenna í körfubolta með 103:97-heimasigri á grönnunum í Njarðvík í miklum spennuleik. Úrslitin réðust eftir tvær framlengingar.

Staðan eftir kaflaskiptan fyrri hálfleik var 46:44, Njarðvík í vil, en Keflavík var með 65:59-forskot eftir þriðja leikhluta. Njarðvík var hins vegar sterkara liðið í fjórða leikhlutanum og var staðan jöfn, 80:80, að honum loknum og því varð að framlengja.

Liðin skoruðu tíu stig hvort í fyrstu framlengingu og því varð að framlengja á ný. Þá seig Keflavík loks fram úr og vann afar sætan sigur á nágrönnunum sínum.

Karina Konstantinova skoraði 28 stig og gaf sjö stoðsendingar fyrir Keflavík og Birna Valgerður Benónýsdóttir gerði 23 stig og tók sjö fráköst.

Aliyah Collier átti magnaðan leik fyrir Njarðvík og skoraði 34 stig, tók 26 fráköst og gaf 14 stoðsendingar. Bríet Sif Hinriksdóttir gerði 18 stig og tók níu fráköst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert