Sara og Elvar körfuknattleiksfólk ársins

Sara Rún Hinriksdóttir er körfuknattleikskona ársins, þriðja árið í röð.
Sara Rún Hinriksdóttir er körfuknattleikskona ársins, þriðja árið í röð. mbl.is/Óttar Geirsson

Sara Rún Hinriksdóttir og Elvar Már Friðriksson hafa verið valin körfuknattleikskona og körfuknattleikskarl ársins 2022 af KKÍ. Þetta er í 25. skipti sem valið er tvískipt milli karla og kvenna eða allt frá árinu 1998.

Körfuknattleikskona og -karl ársins eru valin í kosningu af stjórn og starfsmönnum KKÍ, afreksnefnd KKÍ og landsliðsþjálfurum. Bæði voru þau ríkjandi körfuknattleikskona og -karl síðasta árs. Elvar Már er nú að fá tilnefninguna í annað sinn og Sara Rún er að hljóta nafnbótina í þriðja sinn og þriðja árið í röð.

Val á körfuknattleikskonu ársins 2022:

1. Sara Rún Hinriksdóttir   

2. Hildur Björg Kjartansdóttir   

3. Þóra Kristín Jónsdóttir

Aðrar sem fengu atkvæði í stafrófsröð:

Anna Ingunn Svansdóttir, Birna Valgerður Benónýsdóttir, Dagný Lísa Davíðsdóttir, Eva Margrét Kristjánsdóttir, Helena Sverrisdóttir, Isabella Ósk Sigurðardóttir og Vilborg Jónsdóttir.

Sara Rún Hinriksdóttir · Faenza Basket Project, Ítalíu:

Sara Rún er körfuknattleikskona ársins árið 2022 þriðja árið í röð. Sara Rún sem er uppalin með Keflavík og lék eitt tímabil með Haukum hér heima hefur einnig leikið í háskóla í Bandaríkjunum og leikið undanfarin ár í Evrópu sem atvinnumaður. Sara Rún átti gott tímabil í fyrra með liði sínu í Rúmeníu og var ein af bestu leikmönnum síns liðs. Hún og færði sig til Ítalíu fyrir þetta tímabil til Faenza Basket Project í Serie A.

Þar hefur Sara Rún átt góða leiki, er með 8.3 stig að meðaltali í leik eftir tíu leiki og hefur verið helsti varnarmaður síns liðs og verið sett sérstaklega til höfuðs helstu sóknarmönnum andstæðingana sem sýnir hversu góður varnarmaður hún er.

Sara Rún hefur verið burðarás íslenska kvennalandsliðsins og verið að leiða stigaskorun liðsins að undanförnu í hverjum leiknum á fætur öðrum og undirstrikaði það rækilega í fræknum sigri á Rúmeníu nú í nóvember, þar sem hún skoraði 33 stig og setti um leið íslenskt landsliðsmet leikmanns í einum leik í sögu karla- og kvennalandsliða KKÍ.

Landsliðið lék tvo landsleiki í nóvember í undankeppni EM kvenna 2023 og þar var Sara Rún öflug að venju og fann leiðir að körfunni gegn sterkum andstæðingum. Sara Rún hefur verið ofarlega í öllum helstu tölfræðiþáttum í þessum leikjum og leiðir landsliðið í stigaskorun (10. sæti yfir alla keppnina), fráköstum, stoðsendingum og framlagi sem er frábært afrek.

Sara Rún hefur sífellt verið að taka framförum í sínum leik og verið að taka sér leiðtogahlutverk með landsliðinu og því er ljóst að á næstu árum verður hún áfram ein af mikilvægustu leikmönnum landsliðsins í að leiða ungt lið áfram í næstu verkefnum.

Val á körfuknattleikskarli ársins 2022:

1. Elvar Már Friðriksson     

2. Tryggvi Snær Hlinason   

3. Ægir Þór Steinarsson

Elvar Már Friðriksson er körfuknattleikskarl ársins, annað árið í röð.
Elvar Már Friðriksson er körfuknattleikskarl ársins, annað árið í röð. mbl.is/Óttar Geirsson

Aðrir sem fengu atkvæði í stafrófsröð:

Jón Axel Guðmundsson, Kári Jónsson, Kristófer Acox og Martin Hermannsson.

Elvar Már Friðriksson · BC Rytas Vilnius, Litháen:

Elvar Már er að hljóta nafnbótina körfuknattleiksmaður ársins í annað sinn og annað árið í röð. Elvar Már sem valinn var „MVP - Leikmaður ársins“ í litháísku deildinni fyrir tveimur árum hélt á síðastliðnu tímabili til Belgíu þar sem Elvar Már gerði samning við Antwerp Giants í Belgíu. Þar átti hann mjög gott tímabil með stærsta liði Belgíu og var byrjunarliðsbakvörður og stýrði sóknarleik liðsins.

Í lok þess tímabils fór hann stutt til Ítalíu áður en leiktíðinni lauk. Fyrir þetta tímabil voru það hins vegar svo litháísku meistararnir í Rytas Vilnius sem sóttu Elvar Má og tryggðu sér starfskrafta hans og hefur hann verið að stýra leik þeirra með glæsibrag og leiðir liðið sitt í stoðsendingum en Rytas Vilnius er með feikisterkt lið og stefnir langt. Liðið leikur einnig í Evrópukeppninni, FIBA EuroCup, samhliða deildinni heima fyrir, þar sem liðið er í öðru sæti deildarinnar og er líklegt til afreka í vor í úrslitakeppninni.

Með íslenska landsliðinu hefur Elvar Már verið leiðtogi liðsins og hefur hann tekið þátt í öllum leikjum liðsins á undanförnum árum og heilt yfir verið meðal bestu manna liðsins í hverju verkefninu á fætur öðru. Hann átti stóran þátt í því að koma liðinu inn í undankeppni HM á sl. tveim árum í gegnum ýmsa riðla og forkeppnir, sem hefur reynst gríðarlega dýrmætt, og komið landsliðinu á góðan stað á ný.

Elvar Már átti mjög góða leiki fyrir Ísland á þessu ári þegar Ísland náði í mikilvæg stig, til dæmis gegn Ítalíu, Hollandi og Úkraínu hér heima í leikjum sem var mikilvægt að vinna. Þar lék Elvar Már frábærlega og var óstöðvandi í sóknarleik Íslands sem gerði andstæðinga Íslands ráðþrota í hverjum leiknum á fætur öðrum.

Frábær frammistaða hans í leikjunum tveim gegn Ítalíu varð til þess að lið í efstu deild, Derthona, keypti upp samning hans við Antwerp Giants í lok tímabilsins sem er til marks um hversu mikla athygli hann fékk á árinu. Elvar Már er í 28. sæti yfir flest framlagsstig í undankeppni HM í Evrópu og í 9. sæti yfir bakverði sem segir talsvert um framlag hans til landsliðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert