Matthews og Semple á förum frá KR

Jordan Semple er á meðal framlagshæstu leikmanna úrvalsdeildar karla í …
Jordan Semple er á meðal framlagshæstu leikmanna úrvalsdeildar karla í körfuknattleik á tímabilinu. mbl.is/Óttar Geirsson

Bandaríkjamaðurinn Elbert Clark Matthews og Frakkinn Jordan Semple eru á förum frá botnliði KR í körfuknattleik karla.

Ellert Arnarson, formaður körfuknattleiksdeildar KR, staðfesti tíðindin í samtali við mbl.is.

Matthews verður með KR í einum leik til viðbótar, gegn fyrra liði sínu Grindavík á fimmtudagskvöld, áður en hann fer en Semple hefur þegar yfirgefið herbúðir KR.

Ellert sagði ráðgert að fá leikmenn til KR í staðinn en að ekkert væri fast í hendi í þeim efnum að svo stöddu.

Matthews og Semple eru báðir á meðal stigahæstu leikmanna úrvalsdeildar karla, Subway-deildarinnar, og því vekja brottfarir þeirra athygli.

Matthews er með tæplega 22 stig að meðaltali í leikjunum sjö sem hann hefur spilað fyrir Vesturbæjarliðið á tímabilinu og Semple er með rúmlega 18 stig að meðaltali í 11 leikjum.

Semple er þá á meðal framlagsmestu leikmanna deildarinnar þar sem hann er í fimmta sæti með 9,27 framlagsstig að meðaltali í leik.

KR hefur gengið bölvanlega á tímabilinu þar sem liðið hefur aðeins unnið einn leik af ellefu í deildinni og er með einungis tvö stig á botninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert