Drulluerfiður leikur

Kristófer Acox býr sig undir að hampa bikarnum í dag.
Kristófer Acox býr sig undir að hampa bikarnum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta var drulluerfiður leikur og við vissum að þetta yrði akkúrat svona, að þetta myndi bara detta öðru hvoru megin,“ sagði Kristófer Acox, fyrirliði Vals sigurreifur í lok bikarúrslitaleiks Stjörnunnar og Vals sem Valur vann að lokum með sex stigum, 72:66.

Kristófer Acox í baráttunni í dag.
Kristófer Acox í baráttunni í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

„Bæði lið spiluðu fast og dómararnir leyfðu mikið. Því miður verður annað liðið að tapa og ég gæti ekki verið stoltari af liðinu og strákunum að við stöndum uppi sem sigurvegarar í dag. Þetta var jafnt alveg frá byrjun. Annað liðið kom kannski með smá rönn en hitt liðið jafnaði strax og liðin skiptust á að vera með forystuna.

Við erum komnir með helvíti þéttan hóp og við erum orðnir mjög lunknir að klára svona leiki og ég vissi alltaf að þetta myndi detta okkar megin.“

Kristófer sagði Val ætla að halda áfram og sækja þá tvo titla sem í boði eru.

„Að sjálfsögðu stefnum við á að taka allt sem er í boði. Nú er fyrsta markmiðinu náð. Þá er að sækja næsta og svo þann stóra í vor.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert