Grikkinn Giannis Antetokounmpo átti hreint lygilegan leik fyrir Milwaukee Bucks þegar liðið vann LA Clippers með minnsta mun, 106:105, í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.
Antetokounmpo, sem gengur undir viðurnefninu „gríska skrímslið“, tætti lið Clippers í sig þegar hann skoraði 54 stig og tók 19 fráköst.
LeBron James færist þá sífellt nær stigameti Kareem Abdul-Jabbar í deildinni. Skoraði James 26 stig, tók sjö fráköst og gaf sjö stoðsendingar í 112:111-sigri á Indiana Pacers.
Hann er nú aðeins 63 stigum frá því að bæta met Abdul-Jabbars yfir flest stig skoruð í sögu deildarinnar, 38,387. LeBron hefur skorað 38,325 stig.
Öll úrslit næturinnar:
Milwaukee – LA Clippers 106:105
Indiana – LA Lakers 111:112
New York – Miami 106:104
Cleveland – Memphis 128:113
Chicago – Charlotte 114:98
Denver – Golden State 134:117
Dallas – New Orleans 111:106