Fjórir leikir eru á dagskrá Subway-deildar karla í körfuknattleik þegar 16. umferð fer af stað. Stórleikur kvöldsins fer fram í Ólafssal að Ásvöllum þar sem nýliðar Hauka taka á móti toppliði Keflavíkur.
Keflavík vann fyrri leikinn þar í bæ örugglega, 106:84, og eiga Haukar því harma að hefna.
Með sigri geta heimamenn auk þess saxað á forskot Keflvíkinga þar sem Haukar sitja í fjórða sæti með 20 stig og Keflavík er á toppnum með 24 stig.
Fleiri athyglisverðir leikir eru á dagskrá þar sem Stjarnan fær Tindastól í heimsókn í Garðabæinn.
Höttur fær botnlið KR í heimsókn á Egilsstaði. Höttur er í tíunda sæti með tíu stig og KR með fjögur stig í 12. og neðsta sæti.
Loks mætast Breiðablik og ÍR, sem er í næstneðsta sæti deildarinnar með átta stig, í Kópavogi.
Leikir kvöldsins:
Stjarnan – Tindastóll kl. 18.15
Breiðablik – ÍR kl. 19.15
Höttur – KR kl. 19.15
Haukar – Keflavík 20.15