Stórt tap í Ungverjalandi

Debora Dubei og Isabella Ósk Sigurðardóttir í leiknum í dag.
Debora Dubei og Isabella Ósk Sigurðardóttir í leiknum í dag. Ljósmynd/FIBA

Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik mátti þola stórt tap, 49:89, gegn Ungverjalandi þegar liðin áttust við í undankeppni EM 2023 í Miskolc í Ungverjalandi í dag.

Íslenska liðið hóf leikinn vel þar sem staðan var 6:4, Ungverjum í vil, þegar fyrsti leikhluti var rúmlega hálfnaður.

Ungverjaland náði þá vopnum sínum og komst í 16:6. Í kjölfarið hófu Ungverjar hins vegar að rótera byrjunarliði sínu afar mikið, sem setti leik heimakvenna úr skorðum.

Ísland gekk þá á lagið og lagaði stöðuna töluvert. Staðan var 22:16 að loknum fyrsta leikhluta.

Annar leikhluti hófst hreint frábærlega fyrir íslenska liðið sem skoraði fyrstu fjögur stig hans og minnkaði muninn niður í aðeins tvö stig, 22:20.

Afar illa tókst hins vegar að fylgja þessari fullkomnu byrjun eftir þar sem Ungverjaland hóf að keyra yfir Ísland, jók stöðugt forskotið og var það orðið tuttugu stig, 49:29, þegar fyrri hálfleikur var úti.

Sem fyrr reiddi Ísland sig mikið á Söru Rún Hinriksdóttur í sóknarleiknum enda skoraði hún 12 stig í fyrri hálfleik.

Þá var liðið í vandræðum í varnarleiknum, ekki síst hvað villur varðar, enda fjórir leikmenn komnir með tvær villur snemma í öðrum leikhluta og einn leikmaður, Eva Margrét Kristjánsdóttir, með þrjár.

Róðurinn var því afar þungur fyrir íslenska liðið í síðari hálfleik. Ekkert hjálpaði til að Ísland skoraði ekki sín fyrstu stig í þriðja leikhluta fyrr en hann var rétt tæplega hálfnaður.

Á meðan mjatlaði ungverska vélin áfram og jók forskot sitt jafnt og þétt. Munurinn var orðinn 34 stig, 71:37, þegar þriðja leikhluta var lokið.

Fjórði leikhlutinn reyndist formsatriði þar sem munurinn varð mestur 43 stig, 89:46 og var niðurstaðan að lokum afar öruggur 40 stiga sigur.

Sara Rún lauk leik með 19 stig og var lang stigahæst í liði Íslands og reyndist einnig stigahæst í leiknum. Tók hún þá sex fráköst.

Stigahæst hjá Ungverjalandi var Virag Kiss með 17 stig. Tók hún auk þess níu fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Cyesha Goree bætti við 16 stigum og tók þar að auki níu fráköst.

Ungverjaland er áfram í öðru sæti C-riðils, nú með sex stig. Ísland heldur kyrru fyrir í þriðja sæti með tvö stig.

Ungverjaland 89:49 Ísland opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert