Þór frá Þorlákshöfn gerði sér lítið fyrir og vann gífurlega öruggan sigur á ríkjandi Íslands- og bikarmeisturum Vals, 106:74, í Subway-deild karla í körfuknattleik í Þorlákshöfn í kvöld.
Jafnræði var með liðunum til að byrja með þar sem Valur leiddi með einu stigi, 17:16, að loknum fyrsta leikhluta.
Í öðrum leikhluta tóku Þórsarar hins vegar leikinn yfir og leiddu með 14 stigum, 45:31, þegar flautað var til hálfleiks.
Í síðari hálfleik héldu heimamenn einungis áfram að þjarma að Valsmönnum og náðu mest 21 stigs forskoti, 70:49, undir lok þriðja leikhluta.
Í fjórða og síðasta leikhluta óx Þór einungis ásmegin, jók stöðugt forskotið og niðurstaðan að lokum verðskuldaður 32 stiga sigur.
Vinnie Shahid fór á kostum í liði Þórs er hann skoraði 26 stig ásamt því að taka fimm fráköst og gefa 11 stoðsendingar. Var hann stigahæstur í leiknum.
Styrmir Snær Þrastarson bætti við 19 stigum, átta fráköstum og sex stoðsendingum.
Stigahæstur í liði Vals var Kári Jónsson með 16 stig. Hann tók auk þess fimm fráköst og gaf sex stoðsendingar.
Með sigrinum fór Þór aftur upp úr fallsæti og í það níunda þar sem liðið er nú með 12 stig, jafnmörg og Höttur sæti neðar og tveimur stigum fyrir ofan ÍR í ellefta sæti.
Valur er áfram í öðru sæti með 24 stig, jafnmörg og topplið Keflavíkur.
Icelandic Glacial höllin, Subway deild karla, 10. febrúar 2023.
Gangur leiksins:: 4:5, 8:14, 13:17, 16:17, 24:20, 33:23, 40:27, 45:31, 47:32, 55:34, 61:47, 70:52, 79:62, 86:64, 95:70, 106:74.
Þór Þ.: Vincent Malik Shahid 26/5 fráköst/11 stoðsendingar, Styrmir Snær Þrastarson 19/8 fráköst/6 stoðsendingar, Pablo Hernandez Montenegro 13, Fotios Lampropoulos 13/8 fráköst, Emil Karel Einarsson 9, Jordan Semple 8/7 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 6/5 fráköst, Tómas Valur Þrastarson 6/4 fráköst, Magnús Breki Þórðason 3, Styrmir Þorbjörnsson 2, Sigurður Björn Torfason 1.
Fráköst: 38 í vörn, 5 í sókn.
Valur: Kári Jónsson 16/5 fráköst/6 stoðsendingar, Callum Reese Lawson 15/9 fráköst, Frank Aron Booker 14/8 fráköst, Kristófer Acox 10/5 fráköst, Daði Lár Jónsson 6, Ástþór Atli Svalason 5, Pablo Cesar Bertone 3, Ozren Pavlovic 3, Benedikt Blöndal 2.
Fráköst: 23 í vörn, 8 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Jóhannes Páll Friðriksson, Sigurbaldur Frimannsson.
Áhorfendur: 220