Kristinn Pálsson átti fínan leik fyrir Leeuwarden, er liðið mátti þola 74:78-tap fyrir Den Bosch í BNXT-deildinni í körfubolta, úrvalsdeild Hollands og Belgíu, í dag.
Njarðvíkingurinn skoraði 13 stig, tók fimm fráköst og gaf eina stoðsendingu á 24 mínútum. Liðið er í fjórða sæti með 10 sigra og sjö töp, en liðið hefur tapað tveimur leikjum í röð.
Tryggvi Snær Hlinason skoraði átta stig og tók þrjú fráköst fyrir Zaragoza í 85:71-útisigri á Fuenlabrada í efstu deild Spánar.
Zaragoza hefur nú unnið tvo leiki af síðustu þremur og komið sér af mesta hættusvæðinu. Er liðið nú sex stigum frá fallsæti.
Þá skoraði Hilmar Pétursson 10 stig, gaf sex stoðsendingar og tók þrjú fráköst fyrir Münster í 91:80-útisigri á Kirchheim í þýsku B-deildinni. Münster er í 13. sæti með níu sigra og 13 töp.