Ísland mátti þola stórt tap, 34:88, fyrir Spáni í lokaleik sínum í C-riðli undankeppni EM kvenna í körfuknattleik í Laugardalshöllinni í kvöld.
Spánverjar byrjuðu leikinn á 5:0 kafla áður en Anna Ingunn Svansdóttir setti fyrstu tvö stig íslenska liðsins og minnkaði muninn í 2:5. Ísland stóð almennt ágætlega í spænska liðinu í fyrsta leikhluta og settu tíu stig á móti 18.
Annar leikhluti var þó íslenska liðinu mun erfiðari. Þá fór sóknarleikur spænska liðsins að tikka almennilega og íslenska vörnin átti fá svör. Spánn skoraði 28 stig á móti tíu hjá íslenska liðinu og leiddi í hálfleik með 26 stigum, 46:20.
Íslandi gekk betur að verjast spænska liðinu í þriðja leikhluta og helst framan af. Íslenska liðið náði hinsvegar ekki að nýta sér góða varnartilburði í sókninni því þar vantaði mikil gæði. Er leið á leikhlutann fóru Spánverjarnir aftur að bæta við stigum og luku leikhlutanum 44 stigum yfir, 70:26.
Íslenska liðið setti ekki stig í meira en tíu mínútur frá miðjum þriðja leikhluta til 36. mínútu. Þá nýtti Agnes María Svansdóttir bæði vítaskot sín. Stuttu síðar setti Diljá Ögn Lárusdóttir þrist og hennar 11 stig i leiknum.
Spánverjar héldu þó áfram að hitta ofan í körfuna og unnu að lokum 54 stiga sigur, 88:34.
Diljá Ögn var stigahæst í íslenska liðinu með 14 stig. Þar a eftir kom Sara Rún Hinriksdóttir með sex.
Ísland lýkur keppni í þriðja sæti riðilsins með tvö stig.