Lillard skaut Lakers í kaf

Damian Lillard skoraði 40 stig í nótt.
Damian Lillard skoraði 40 stig í nótt. AFP/Amanda Loman

Damian Lillard fór á kostum þegar lið hans Portland Trail Blazers vann góðan sigur á LA Lakers, 127:115, í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Lillard skoraði 40 stig, tók sex fráköst og gaf fimm stoðsendingar að auki fyrir Portland.

Lakers saknaði gamla brýnisins LeBron James, sem lék ekki í nótt vegna meiðsla.

Stigahæstur í liði Lakers var Malik Beasley með 22 stig en Anthony Davis átti afar góðan leik er hann skoraði 19 stig og tók 20 fráköst.

Serbinn Nikola Jokic var við sama heygarðshornið þegar hann leiddi Denver Nuggets til sigurs, 112:108, gegn Miami Heat.

Hann var hársbreidd frá þrefaldri tvennu er hann skoraði 27 stig, tók 12 fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Jimmy Butler var sömuleiðis hársbreidd frá þrefaldri tvennu í liði Miami. Skoraði hann 24 stig, tók tíu fráköst og gaf níu stoðsendingar.

Kyrie Irving og Luka Doncic áttu þá báðir stórleik fyrir Dallas Mavericks í naumu tapi fyrir Minnesota Timberwolves, 121:124.

Irving skoraði 36 stig, tók fimm fráköst og gaf sex stoðsendingar og Doncic skoraði 33 stig ásamt því að taka 12 fráköst og gefa sex stoðsendingar.

Anthony Edwards var stigahæstur hjá Minnesota með 32 stig.

Öll úrslit næturinnar:

Portland – LA Lakers 127:115

Miami – Denver 108:112

Dallas – Minnesota 121:124

Charlotte – Atlanta 144:138

Cleveland – San Antonio 117:109

Indiana – Utah 117:123

Philadelphia – Houston 123:104

New York – Brooklyn 124:106

Oklahoma – New Orleans 100:103

Golden State – Washington 135:126

Chicago – Orlando 91:100

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert