Helgi Már Magnússon, þjálfari KR, var að vonum svekktur eftir tap gegn Val, 90:71, í Subway-deild karla í körfubolta í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld.
„Þetta er bara svekkjandi. Mér fannst við spila mjög vel í fyrri hálfleiknum og varnarfærslan hjá okkur var til fyrirmyndar. Við gerðum það sem við vorum búnir að tala um fyrir leikinn en svo í seinni hálfleik, ég þarf reyndar að sjá það aftur, fannst mér við fá galopin skot sem við settum ekki en menn mega ekki verða litlir við það. Svo meiðist Antonio Williams sem er okkar helsti skapari og við náðum okkur einhvern veginn ekki í gang eftir það.“
Eins og Helgi sagði byrjaði KR leikinn betur en liðið komst m.a. í 11:0 og leiddi allan fyrri hálfleikinn. Snemma í seinni hálfleik komst Valur yfir og leit liðið aldrei um öxl eftir það.
„Þetta var þetta klassíska. Valsararnir hittu nokkrum skotum, þetta er frábært lið. En menn þurfa að halda skipulagi, við tókum aðeins aðrar útfærslur en búið var að tala um og þá eru bara 2-3 leikmenn í því. Það þurfa allir fimm að vera á sömu blaðsíðunni varnarlega, það kom þarna kafli þar sem við vorum ekki að gera það sem við vorum búnir að tala um og þá riðlast allt varnarlega.“
KR er í vondum málum í deildinni en liðið er átta stigum frá öruggu sæti þegar fimm umferðir eru eftir. Liðið þarf því á kraftaverki að halda til að halda sér í deildinni.
„Þetta er búið að vera dökkt núna í töluverðan tíma og svona er bara staðan. Það er ekkert annað sem við getum gert en að koma undirbúnir í næsta leik, reyna að kreista fram sigur og taka þetta svo þaðan. Það er alveg sama hver staðan er, við þurfum bara að keyra á þetta og sjá hvernig þetta endar.“
Þá telur Helgi leikmenn sína vera klára í verkefnið og að það verði ekki vandamál að gíra þá upp í komandi leiki.
„Það verður ekkert erfiðara en fyrir þennan leik. Við erum með fjóra atvinnumenn og unga stráka sem eru hungraðir. Það verður ekkert mál að gíra þá upp, það er bara mitt hlutverk.
Þangað til að möguleikinn er farinn keyrum við á þetta. Það er ekkert hik í okkur, við bara keyrum á þetta.“