Valur komst upp að hlið Njarðvíkur á nýjan leik á toppi Subway-deildar karla í körfubolta eftir sigur á KR í Reykjavíkurslag, 90:71, í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld.
KR byrjaði leikinn betur og komst m.a. í 11:0 á fyrstu mínútum leiksins. Liðið lék vel lengstan hluta fyrri hálfleiks og leit ekki út eins og botnlið deildarinnar. Valsliðið vaknaði aðeins til lífsins þegar leið á hálfleikinn en var samt sem áður langt frá sínu besta. KR leiddi allan fyrri hálfleikinn og var munurinn tvö stig, 38:36, þegar gengið var til búningsherbergja, Vesturbæingum í vil.
Valsmenn byrjuðu af talsvert meiri í krafti í seinni hálfleik en þegar þrjár mínútur voru liðnar af honum kom Kristófer Acox liðinu yfir í fyrsta sinn í leiknum. Valsmenn gengu á lagið með Kára Jónsson og Kristófer fremsta í flokki og um sex mínútum síðar var liðið komið 16 stigum yfir. Þegar þriðja leikhluta lauk leiddi Valur með 13 stigum, 62:49.
Í fjórða leikhluta var aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi. Valur spilaði af mikilli skynsemi og þrátt fyrir að reyna allt hvað þeir gátu voru KR-ingar aldrei nálægt því að ógna forystu Valsmanna. Síðustu mínútur leiksins juku Valsmenn svo við forskot sitt og lokatölur leiksins urðu 90:71.
Stigahæstur Valsmanna var Kristófer Acox en hann átti frábæran leik, skoraði 24 stig og tók átta fráköst að auki. Næstur kom Callum Lawson með 17 stig og þá gerði Kári Jónsson 15. Hjá KR var Justas Tamulis stigahæstur með 22 stig en Veigar Áki Hlynsson átti einnig fínan leik með 18 stig.
Valur er því eins og áður sagði á toppi deildarinnar ásamt Njarðvík en bæði lið eru með 26 stig. Keflavík á leik gegn Þór Þorlákshöfn á morgun og getur með sigri komist upp að hlið þeirra. KR-ingar eru hins vegar svo gott sem fallnir en liðið er átta stigum frá öruggu sæti þegar fimm leikir eru eftir. Ljóst er að KR þarf því á kraftaverki að halda ætli liðið sér ekki að falla úr deild þeirra bestu.
Origo-höllin, Subway deild karla, 16. febrúar 2023.
Gangur leiksins: 0:11, 4:13, 10:15, 14:21, 22:23, 24:29, 30:35, 36:38, 41:41, 46:42, 53:44, 62:49, 66:54, 71:58, 83:63, 90:71.
Valur: Kristófer Acox 24/8 fráköst, Callum Reese Lawson 17/4 fráköst, Kári Jónsson 15/7 fráköst, Pablo Cesar Bertone 12/5 stolnir, Hjálmar Stefánsson 11/5 fráköst, Ozren Pavlovic 5/8 fráköst, Ástþór Atli Svalason 3, Frank Aron Booker 3.
Fráköst: 27 í vörn, 9 í sókn.
KR: Justas Tamulis 21/4 fráköst, Veigar Áki Hlynsson 18/8 fráköst, Brian Edward Fitzpatrick 11/5 fráköst/5 stoðsendingar, Aapeli Elmeri Ristonpoika Alanen 8/6 fráköst, Antonio Deshon Williams 4, Þorsteinn Finnbogason 3, Hallgrímur Árni Þrastarson 2, Lars Erik Bragason 2, Þorvaldur Orri Árnason 2.
Fráköst: 22 í vörn, 7 í sókn.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Gunnlaugur Briem, Birgir Örn Hjörvarsson.
Áhorfendur: 127.