Með úrslitum gærkvöldsins í úrvalsdeild karla í körfuknattleik þar sem Þór úr Þorlákshöfn og Höttur unnu góða útisigra á Keflavík og Stjörnunni má segja að örlög KR-inga hafi endanlega verið ráðin.
KR situr eftir á botni deildarinnar með 4 stig og í enn vonlausari stöðu en eftir ósigurinn gegn Val á fimmtudagskvöldið. Þegar fimm umferðir eru eftir er KR tíu stigum á eftir liðunum í sjöunda til tíunda sæti, Grindavík, Stjörnunni, Hetti og Þór.
Það sem meira er, KR er með verri útkomu í innbyrðis viðureignunum gegn þremur af þessum fjórum liðum.
Til að halda sér í deildinni þarf KR að vinna alla fimm leiki sína sem eftir eru, gegn Keflavík, ÍR, Njarðvík, Tindastóli og Stjörnunni, treysta á að Stjarnan tapi öllum sínum fimm leikjum og að ÍR vinni ekki meira en einn leik af síðustu fimm.
Til viðbótar þyrftu KR-ingar að vinna Stjörnuna með tólf stiga mun í lokaumferðinni til að komast uppfyrir Garðabæjarliðið, ef sú ólíklega staða myndi koma upp að lokinni 21. umferðinni að KR ætti ennþá möguleika.
Fall KR úr efstu deild verður sögulegt í íslenskum körfuknattleik því Vesturbæjarfélagið er það eina sem aldrei hefur leikið utan efstu deildar frá því Íslandsmótið var stofnað.
Þá gætu ÍR-ingar hæglega fallið með KR-ingum. Þeir eru í mjög erfiðri stöðu í næstneðsta sætinu með 10 stig, og verði það niður staðan mun Reykjavík aðeins eiga eitt lið í hópi þeirra tólf sem skipa úrvalsdeildina 2023-2024. Það hefur heldur aldrei áður gerst.
KR og ÍR eru aukinheldur þau tvö félög sem oftast hafa orðið Íslandsmeistarar. KR vann sinn 18. titil árið 2019 og varð þá meistari sjötta árið í röð. ÍR hefur orðið 15 sinnum Íslandsmeistari en hefur hins vegar ekki hreppt titilinn frá árinu 1977.