Valur óvænt í vandræðum með Fjölni

Kiana Johnson var stigahæst hjá Val.
Kiana Johnson var stigahæst hjá Val. mbl.is/Óttar Geirsson

Valskonur unnu í kvöld sinn tíunda sigur í röð í Subway-deild kvenna í körfubolta er liðið fékk Fjölni í heimsókn og fagnaði fimm stiga sigri, 109:104.

Eftir hnífjafnan fyrsta leikhluta, sem endaði 23:23, var Valsliðið betra í öðrum leikhluta og var staðan í hálfleik 56:44.

Valur náði svo mest 24 stiga forskoti í þriðja leikhluta og virtist ætla að sigla þægilegum sigri í höfn í fjórða leikhlutanum.

Fjölniskonur neituðu hins vegar að gefast upp og munaði aðeins einu stigi á liðunum þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir, 99:98. Valskonur voru hins vegar sterkari í blálokin og fögnuðu naumum sigri.

Kiana Johnson skoraði 28 stig fyrir Val og Hallveig Jónsdóttir 22. Brittany Dinkins átti magnaðan leik fyrir Fjölni, skoraði 46 stig, tók sjö fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Urté Slavickaite skoraði 18 stig og gaf tíu stoðsendingar.

Valur er í öðru sæti með 34 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Keflavíkur. Fjölnir er í sjötta sæti með tíu stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert