Körfuknattleiksmaðurinn Russel Westbrook hefur samið um starfslok við Utah Jazz og mun færa sig yfir til LA Clippers, sem leikur á sama heimavelli og Lakers. Þetta staðfestir umboðsmaður hans, Jeff Schwartz.
Þetta verður að teljast undarlegar fréttir en Westbrook, sem er 34 ára gamall, samdi aðeins á dögunum við Utah Jazz eftir hörmulegan tíma hjá Lakers. Það voru miklar væntingar bundnar við Westbrook eftir að Lakers sótti hann frá Washington Wizards árið 2021 en annað kom á daginn.
Dvöl hans í gula búningnum var hrein hörmung og hann var gerður að blóraböggli er ekkert gekk upp hjá liðinu. Hann var síðar sendur til Utah, en stoppar ekki lengi þar.
LA Clippers hefur staðið sig vel á tímabilinu og er sem stendur í 4. sæti Vesturdeildarinnar.