Evrópumeistararnir reyndust of sterkir

Ísland mátti þola tap gegn Evrópumeisturum Spánverja, 80:61, er liðin mættust í undankeppni HM karla í körfubolta í Laugardalshöll í kvöld.

Spánn er með 16 stig, Ítalía 12, Georgía 10, Ísland 8, Úkraína 6 og Holland er án stiga. Leikur Ítalíu og Úkraínu stendur yfir en Georgía, Ísland og Úkraína berjast um þriðja sætið sem gefur keppnisréttinn á HM 2023.

Spánverjar voru skrefinu á undan allan fyrri hálfleikinn, en íslenska liðið þó aldrei langt undan. Spænska liðið var að hitta vel fyrir utan á meðan íslenska liðið var að gera vel í að koma boltanum á Tryggva Snæ Hlinason undir körfunni og oftar en ekki kláraði Tryggvi ofan í körfuna.

Þegar fyrsti leikhluti var allur var Spánn með þriggja stiga forskot, 22:19. Spánverjar byrjuðu annan leikhlutann betur og náðu snemma átta stiga forskoti, 29:21. Þá kom glæsilegur kafli hjá Íslandi með átta stigum í röð og tókst íslenska liðinu að jafna í 29:29.

Þá tók spænska liðið leikhlé og mætti töluvert öflugra til leiks eftir það. Spánverjar skoruðu hverja körfuna á fætur annarri og munaði tíu stigum í fyrsta skipti þegar Spánn komst í 39:29. Sá var einmitt munurinn í hálfleik, 43:33.

Tryggvi Snær Hlinason og Jón Axel Guðmundsson voru stigahæstir í íslenska liðinu í fyrri hálfleik með tíu stig hvor. Ægir Þór Steinarsson var með fimm stig.

Íslandi gekk illa að minnka muninn í þriðja leikhlutanum, því Spánverjar voru með svör við öllu sem Íslendingar reyndu. Í hvert skipti sem Ísland hótaði áhlaupi, kom þristur hinum megin. Þegar þriðji leikhluti var búinn hafði Spánn aukið muninn í 14 stig, 62:48.

Ísland var búið að minnka muninn aftur í tíu stig þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka, 67:57. Rétt eins og í þriðja leikhlutanum svöruðu gestirnir og sáu til þess að Ísland náði aldrei að minnka muninn að ráði. Var því nokkuð öruggur útisigur raunin.

Síðasti leikur Íslands í riðlinum er gegn Georgíu á útivelli á sunnudaginn kemur og þar ráðast úrslitin um HM-sætið dýrmæta endanlega.

Ísland 61:78 Spánn opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert