Lyginni líkast

Craig Pedersen á æfingu gærdagsins.
Craig Pedersen á æfingu gærdagsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Leikurinn gegn Spáni verður mjög erfiður,“ sagði Craig Pedersen, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í körfuknattleik, í samtali við mbl.is á æfingu liðsins í Laugardalshöll í dag.

Ísland mætir Spáni á morgun í L-riðli undankeppni HM 2023 í Laugardalshöll í kvöld en liðið ferðast svo til Tbilisi þar sem það mætir Georgíu á sunnudaginn.

„Þetta er ekki sama spænska liðið og varð Evrópumeistari síðasta sumar en á sama tíma eru allir leikmenn liðsins lykilmenn í sínum liðum á Spáni þannig að verkefnið verður bæði erfitt og krefjandi.

Georgía er með mjög reynslumikla leikmenn sem eru lykilmenn hjá sterkum félagsliðum í Evrópu. Þeir eru með bandarískan bakvörð sem er frábær en vonandi getum við komið þeim eitthvað á óvart og unnið þá,“ sagði Craig.

Craig Pedersen.
Craig Pedersen. Ljósmynd/FIBA

Ná einstaklega vel saman

Leikurinn í kvöld verður 20. leikur íslenska liðsins í for- og undankeppninni sem hófst í febrúar árið 2020.

„Það er alltaf gaman þegar landsliðið kemur saman enda ná leikmenn liðsins einstaklega vel saman. Í sannleika sagt, þegar að þú horfir á liðin sem við höfum mætt í keppninni hingað til, þá er ótrúlegt að við séum komnir á þann stað sem við erum í dag.

Við erum á leiðinni inn í lokaglugga undankeppninnar og við eigum enn þá möguleika á því að komast áfram í lokakeppninni sem er lyginni líkast. Við höfum aldrei verið í betri stöðu ef svo má segja og ég er mjög stoltur af liðinu,“ bætti Craig við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert