Risastórt fyrir bæði lið

Tryggva leiðist ekki að troða með tilþrifum.
Tryggva leiðist ekki að troða með tilþrifum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmaður í körfubolta, var ánægður með margt hjá íslenska liðinu er það tapaði fyrir því spænska í undankeppni EM í Laugardalshöll í kvöld. Spænska liðið er ríkjandi heims- og Evrópumeistari og þarf íslenska liðið ekki að skammast sín fyrir 19 stiga tap.

„Ef maður horfir á tölfræðina er þetta skotnýtingin. Við fengum mörg góð skot, en Spánverjarnir settu sín skot. Þegar þeir eru opnir, eru þeir fljótir að refsa. Þeir settu skotin þegar við héldum að við værum að fara að komast inn í leikinn. Þeir slökktu í okkar áhlaupum með tveimur þristum eða svo,“ sagði Tryggvi við mbl.is og hélt áfram:

„Til að vinna svona lið er gott að vera aðeins á eftir þeim og reyna síðan að vinna í lokaleikhlutanum. Í þetta skiptið náðu þeir að halda okkur niðri. Þeir slógu okkur niður í hvert skipti sem við náðum smá áhlaupi.“

Hann er ánægður með innkomu leikmanna í kvöld, sem hafa minna fengið að spreyta sig í keppnisleikjum síðustu ár.

„Við vorum að spila á móti hörkugóðu liði, en við getum tekið margt jákvætt úr leiknum. Það voru margir sem fengu að spila og læra aðeins að vera í þessu umhverfi. Það er jákvætt.“

Íslenska liðið hvíldi einhverja leikmenn í kvöld, enda úrslitaleikur við Georgíu ytra fram undan á sunnudag. Ísland fer á HM með meira en þriggja stiga sigri.

„Að vissu leyti var þetta leikurinn sem skipti minna máli. Við vissum alltaf að þetta yrði úrslitaleikur í Georgíu og það er betra að þurfa bara að vinna með fjórum. Það er að duga eða drepast.

Ég er spenntur. Ég hef spilað á mörgum stöðum og sumir þeirra eflaust líkir Georgíu. Þetta er samt í fyrsta skipti sem ég kem þangað, sem er gaman. Þetta verður hörkuleikur og bæði lið vita hvað er undir. Þetta er risastórt fyrir bæði lið og þá sérstaklega okkur,“ sagði Tryggvi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert