„Mér fannst þeir hitta vel,“ sagði Hlynur Bæringsson í samtali við mbl.is í kvöld. Hlynur var hluti af íslenska landsliðinu í körfubolta, sem mátti þola 61:80-tap fyrir heims- og Evrópumeisturum Spánverja í undankeppni HM í Laugardalshöll í kvöld.
„Við tókum sénsa á nokkrum mönnum og fórum undir boltahindranirnar þeirra og þá settu þeir nokkur skot. Þeir voru líka sterkir í sóknarfráköstum og fengu svolítið oft annan séns. Það er helst það sem skildi liðin að,“ bætti hann við.
Ljóst var fyrir leikinn í kvöld að Ísland mátti tapa, án þess að það hefði mikil áhrif á framhaldið. Lokaleikurinn gegn Georgíu á sunnudag er töluvert mikilvægari.
„Mér fannst orkustigið ekkert sérstaklega hátt í þessum leik, en heldur ekki mjög lágt. Einbeitingin okkar er á Georgíuleikinn. Við hvíldum Tryggva meira en við höfum gert og sömuleiðis nokkra af okkar bestu varnarmönnum. Í staðinn fengum við leikmenn eins og Hjálmar inn og hann stóð sig frábærlega í hlutverki sem hann getur spilað með landsliðinu.“
Hlynur spilaði sinn fyrsta landsleik í kvöld frá árinu 2019, en hann er orðinn fertugur. Hann naut þess að fá að spreyta sig á ný í landsliðstreyjunni í 130. skipti á ferlinum.
„Það var yndislegt. Ég reyndi mitt besta. Ég vissi að það yrðu fáar mínútur. Ég tók tvö skot og ég hefði viljað setja annað þeirra. Mér leið samt ótrúlega vel og hafði mjög gaman að þessu.“
Hlynur hefur áður spilað í Georgíu og hlakkar mikið til úrslitaleiksins á útivelli gegn mikilli körfuboltaþjóð. Hann á hins vegar ekki einungis góðar minningar frá ferðalögum til Austur-Evrópuþjóðarinnar.
„Ég hlakka mikið til alls, nema ferðalagsins. Þegar ég er kominn þangað hlakka ég til. Það er langt síðan ég kom til Georgíu. Ég kom þangað síðast árið 2006 og var rotaður eftir 30 sekúndna leik. Vonum að það gerist ekki aftur.
Það verður gott að koma þangað. Það verður mjög mikil stemning og þeir eru að tjalda öllu til, en við ætlum að gera það líka. Þetta eru leikirnir sem maður er í þessu til að spila, þótt ég ætti kannski að vera hættur. Þetta eru ótrúlega minnisstæðir leikir og stemningin þarna er ótrúleg. Það er mikil upplifun að spila svona leiki,“ sagði Hlynur.