Sagði Ítölunum að gera okkur greiða

Jón Axel Guðmundsson í krefjandi aðstæðum í kvöld.
Jón Axel Guðmundsson í krefjandi aðstæðum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Skotnýtingin. Ég veit ekki hvað þeir voru að hitta fyrir utan þriggja stiga línuna, en það var töluvert betra en við,“ sagði Jón Axel Guðmundsson, landsliðsmaður í körfubolta, um það sem skildi íslenska liðið og það spænska af í leik liðanna í undankeppni EM í kvöld.

Spánverjar voru um tíu stigum yfir stóran hluta leiks, en stungu af undir lokin og unnu 19 stiga sigur, 80:61.

„Þetta var meira og minna í tíu stigum allan leikinn. Við náðum þessu niður í fimm og þá settu þeir strax tvo þrista. Þetta er Spánn og það er ekki af ástæðulausu að þetta lið er Evrópu- og heimsmeistari,“ sagði Grindvíkingurinn við mbl.is. 

Þrátt fyrir úrslitin var Jón ánægður með frammistöðuna, á móti gríðarlega sterkum andstæðingi. „Mér fannst hún góð. Við vorum að gera vel í að finna Tryggva undir körfunni. Ef við hefðum verið að skjóta aðeins betur hefði þetta verið þægilegra hjá okkur í kvöld.“

Aðeins einn leikmaður spænska hópsins sem mætti Íslandi í kvöld lék með liðinu er það varð Evrópumeistari á síðasta ári. Þrátt fyrir það mætti íslenska liðið mjög sterku spænsku liði í kvöld.

„Við vorum ekki að spila á móti bestu leikmönnunum þeirra, en samt eru þeir mjög líkamlega sterkir og virkilega skipulagðir. Þeir vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera í hverri einustu sókn og hverri einustu vörn. Þetta eru betri leikmenn en flestir hjá okkur hafa mætt, sérstaklega Alberto Díaz og Joel Parra, sem eru í aðalliði Spánverja. Díaz er einn besti varnarmaður Evrópu. Þetta er aðeins öðruvísi en við erum flestir vanir,“ útskýrði Jón.

Hann leikur með Pesaro á Ítalíu og það voru einmitt Ítalir sem gerðu Íslendingum greiða í kvöld, með því að vinna Úkraínu, 85:75, í sama riðli. Úrslitin þýða að Ísland fer á HM með fjögurra stiga sigri á Georgíu á útivelli í lokaleik liðsins í riðlinum. Hefði Úkraína unnið, hefði Ísland þurft að vinna með 19 stigum til að fara á HM.

„Mér líst vel á þetta. Ég talaði við Ítalina og bað þá um að gera okkur einn greiða. Við þurfum að gíra okkur upp fyrir Georgíumenn, sem munu mæta brjálaðir. Þeir spiluðu á móti Hollandi í kvöld og þurfa að ferðast eins og við. Við þurfum að vera aðeins klikkaðri en við vorum í kvöld og þurfum að spila með meira sjálfstrausti. Þetta gerist ekki betra. Ég horfði á þá á Evrópumótinu og þá sást að þetta er snargeðveik körfuboltaþjóð. Vonandi verður góð stemning og þeir með tárin í augunum á leiðinni af vellinum,“ sagði Jón Axel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert