Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik á möguleika á því að tryggja sér sæti í lokakeppni heimsmeistaramótsins 2023 í fyrsta sinn í sögunni en mótið fer fram á Filippseyjum, í Japan og Indónesíu dagana 25. ágúst til 10. september.
Ísland er sem stendur með 8 stig í fjórða sæti L-riðils keppninnar, líkt og Georgía. Spánn er í efsta sæti riðilsins með 14 stig og Ítalía er í öðru sætinu með 12 stig og eru bæði lið örugg með sæti í lokakeppninni.
Þrjú lið úr hverjum Evópuriðli fara áfram í lokakeppnina og Georgía, Ísland og Úkraína berjast um þriðja og síðasta sæti riðilsins en Úkraína er með 6 stig í fimmta sætinu.
Takist Íslandi að leggja Spánverja að velli í kvöld í Laugardalshöll þá er íslenska liðið komið í afar vænlega stöðu en á sama tíma mætast Ítalía og Úkraína í Livorno og Holland og Georgía mætast í Almere.
Í lokaumferðinni mætast Ísland og Georgía svo á sunnudaginn í Tíblisi á meðan Úkraína tekur á móti Hollandi í Riga. Takist Íslandi að vinna Georgíu með fjórum stigum eða meira endar Ísland ofar en Georgía, verði liðin jöfn að stigum.
Íslenska liðið þarf hins vegar að vona að Ítalía vinni Úkraínu í kvöld. Verði það niðurstaðan þá er Úkraína úr leik í baráttunni um 3. sæti riðilsins og þá mun fjögurra stiga sigur eða meira gegn Georgíu duga til þess að tryggja HM-sætið.
Fyrrverandi landsliðsfyrirliðinn Hlynur Bæringsson er mættur aftur í íslenska hópinn eftir tæplega fjögurra ára fjarveru en hann lék síðast með landsliðinu sumarið 2019.
„Þetta er vissulega sérstakt fyrir mig en á sama tíma er þetta mikill heiður fyrir mig persónulega að hafa verið beðinn um það að koma aftur inn í þetta á þessum tímapunkti. Ég veit satt best að segja ekkert hvert mitt hlutverk verður; hvort ég sé að fara taka virkan þátt í æfingunum bara eða þá að spila einhverjar mínútur,“ sagði Hlynur í samtali við Morgunblaðið á æfingu íslenska liðsins í Laugardalshöll í gær.
Greinina má sjá í heild sinni í Morgunblaðinu sem kom út í morgun.