Úkraína tapaði - hreinn úrslitaleikur hjá Íslandi

Ítalir, sem hér verjast Elvari Má Friðrikssyni, unnu Úkraínu í …
Ítalir, sem hér verjast Elvari Má Friðrikssyni, unnu Úkraínu í kvöld. Ljósmynd/FIBA

Ítalir sigruðu Úkraínumenn í Livorno á Ítalíu í kvöld í undankeppni heimsmeistaramóts karla í körfuknattleik, 85:75.

Þar með eru vonir Úkraínumanna um að ógna Íslandi og Georgíu og slást um sæti í lokakeppni HM í síðustu umferð riðlakeppninnar á sunnudaginn endanlega úr sögunni.

Leikur Georgíu og Íslands í Tbilisi verður hreinn úrslitaleikur þar sem íslenska liðið þarf fjögurra stiga sigur til að tryggja sér sæti í lokakeppninni í fyrsta sinn.

Úkraínumenn stóðu lengi vel í Ítölum. Staðan var jöfn í hálfleik, 43:43, og þeir komust yfir um tíma í síðari hálfleiknum. Ítalir sigldu hins vegar fram úr þeim af talsverðu öryggi á lokakaflanum, íslensku landsliðsmönnunum og forráðamönnum liðsins í Laugardalshöllinni til mikils léttis en þeir biðu úrslitanna eftir að leik Íslands og Spánar lauk.

Sigur Úkraínu hefði þýtt að Ísland hefði þurft að vinna Georgíu með 20 stiga mun á sunnudaginn en til þess kom ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert