Ægir Þór Steinarsson, landsliðsmaður í körfubolta, ræddi við mbl.is eftir 61:80-tap á móti heims- og Evrópumeisturum Spánar í undankeppni HM í Laugardalshöll í gærkvöldi. Spænska liðið var með undirtökin allan leikinn og vann að lokum öruggan 19 stiga sigur.
„Við duttum í þeirra gryfju. Þetta var alvöru spænskur bolti hjá þeim og við náðum ekki að setja okkar stemningsskot niður.
Það vantaði fráköstin líka og maður fann að krafturinn var ekki alveg til staðar. Maður verður að setja niður skotin á móti svona liðum og þau fóru ekki niður í kvöld,“ sagði Ægir um leikinn.
Ægir spilar með Alicante á Spáni, sem er fimmta spænska liðið á ferlinum. Hann þekkir því spænskan körfubolta býsna vel og hvað gerir hann erfiðan við að eiga.
„Þeir eru virkilega skipulagðir og ef eitthvað er að virka í sókninni, þá halda þeir endalaust áfram í því. Þeir eru alltaf með skothelt leikplan og agaðir. Við hefðum mátt hleypa þessu í meiri geðveiki, sem hefði hentað okkur betur.“
Ísland leikur úrslitaleik um sæti á lokamóti HM á útivelli gegn Georgíu á sunnudag. Íslenska liðið þarf að vinna með minnst fjórum stigum til að fara á lokamót HM í fyrsta sinn.
„Ég er ógeðslega spenntur. Við erum að fara í aðstæður þar sem er troðfull höll og við fáum að spila körfubolta á móti einni af bestu þjóðunum. Þannig vill maður hafa þetta,“ sagði Ægir.