Þrjár breytingar á landsliðinu fyrir úrslitaleikinn

Kristófer Acox kemur inn í landsliðið á ný en hann …
Kristófer Acox kemur inn í landsliðið á ný en hann var ekki með gegn Spáni í gærkvöld vegna meiðsla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrjár breytingar voru gerðar á karlalandsliðinu í körfuknattleik eftir leikinn gegn Spáni í gærkvöld en liðið flaug í morgun áleiðis til Tbilisi í Georgíu þar sem það mætir heimamönnum á sunnudag í hreinum úrslitaleik um sæti á HM.

Elvar Már Friðriksson, Kristófer Acox og Haukur Helgi Pálsson koma allir inn í hópinn en þeir voru hvíldir í leiknum við Spán þar sem þeir hafa allir verið tæpir vegna meiðsla.

Í staðinn urðu eftir heima þeir Ragnar Nathanaelsson, Hilmar Smári Henningsson og Kristinn Pálsson.

Liðið er komið til Parísar þar sem það bíður í sjö tíma eftir flugi til Tbilisi en þangað kemur það ekki fyrr en á miðnætti að íslenskum tíma. Þá er klukkan orðin fjögur að nóttu í höfuðborg Georgíu.

Liðið æfir þar um miðjan dag á morgun og síðan er hvíld og endurhæfing fram að úrslitaleiknum sem hefst þar klukkan 16 að íslenskum tíma á sunnudaginn.

„Allir í hópnum eru heilir en það er smá þreyta í hópnum eftir leikinn við Spánverja. En hér eru allir kátir og klárir í verkefnið,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, við mbl.is eftir lendinguna í París.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert