„Manni hefur aldrei liðið jafn illa eftir leik og hvað þá eftir sigurleik,“ segir Sigtryggur Arnar Björnsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í körfubolta í kjölfar grátlegs sigurs í undankeppni HM í Georgíu í dag.
„Manni líður hræðilega en við getum tekið margt jákvætt út úr þessum leik. Við erum að spila hérna úti í Georgíu í troðfullri höll á móti hörku landsliði í miklum látum og óvinveittu umhverfi og við vinnum leikinn.
Það er mjög vel gert hjá okkur finnst mér. Við eigum að vera sáttir en það er erfitt eins og er.“
Sigtryggur Arnar segir að íslenska liðið hefði auðvitað átt að vinna heimaleikinn gegn Georgíu en hann tapaðist með þremur stigum sem gerði að verkum að liðið þurfti fjögurra stiga sigur í dag.
Leikurinn vannst með þriggja stiga mun og fékk íslenska liðið opið þriggja stiga skot undir lok leikls til að komast á HM í haust.
„Ef þú hefðir boðið mér þetta skot til að koma okkur á HM hefði ég alltaf þegið það. Elvar var heitur með 25 stig í leiknum og með galopið skot sem var akkúrat það sem við vildum.“
Sigtryggur Arnar er ánægður með hugarfar liðsins.
„Við vorum mjög stórir í þessum leik. Það er ekkert grín að mæta í þessa höll í þessum hávaða og með þessa pressu á sér. Við vorum stórir og unnum þennan leik og eigum að vera stoltir.“