Fjölnir vann gífurlega mikilvægan tveggja stiga sigur á Grindavík, 80:78, í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Grafarvogi í kvöld.
Mikið jafnræði var á milli liðanna í fyrsta leikhluta og þau skiptu með sér stigunum, að lokum hans leiddu Grindvíkingar með þremur stigum, 23:20.
Sama má segja um mestallan annan leikhluta en Fjölnisliðið kom sér í forystu undir lok fyrri hálfleiksins og leiddi með þremur stigum, 39:36.
Fjölnisliðið náði nokkrum sinnum góðri forystu í þriðja leikhluta, 54:47 og 58:52, en Grindvíkingar svöruðu og jöfnuðu metin er ein mínúta var eftir af leikhlutanum, Fjölnir setti þó síðustu tvö stig leikhlutans og leiddi með tveimur, 60:58.
Fjölnisliðið jók forystu sína mestallan fjórða leikhluta en undir lok hans kom Grindavík sér aftur inn í leikinn. Er mínúta var eftir leiddu Fjölniskonur með aðeins tveimur stigum. Þær héldu þó forystunni út leikinn og unnu tveggja stiga sigur, 80:78.
Brittany Dinkins var stórkostleg í liði Fjölnis en hún setti 30 stig, tók átta fráköst og gaf átta stoðsendingar. Liðsfélagi hennar Simone Sill átti einnig góðan leik með 17 stig og 15 fráköst.
Danielle Victoria Rodriguez var atkvæðamest í liði Grindavíkur með 18 stig, sex stoðsendingar og sex fráköst. Amanda Okodugha var stigahæst með 19 stig en hún tók einnig níu fráköst.
Með sigrinum kemur Fjölnisliðið sér fjórum stigum frá fallsæti með 12 en Breiðablik er með átta í næstneðsta sætinu. Grindavík er í fimmta sæti með 18 stig.
Gangur leiksins:: 4:7, 9:11, 13:13, 20:23, 24:25, 29:28, 34:34, 39:36, 46:40, 52:44, 56:50, 60:58, 64:62, 70:66, 77:71, 80:78.
Fjölnir: Brittany Dinkins 30/8 fráköst/8 stoðsendingar, Simone Sill 17/15 fráköst, Urté Slavickaite 11/5 stoðsendingar, Stefania Tera Hansen 9/5 fráköst, Heiður Karlsdóttir 9/9 fráköst, Bergdís Anna Magnúsdóttir 2, Aðalheiður Ella Ásmundsdóttir 2/4 fráköst.
Fráköst: 34 í vörn, 9 í sókn.
Grindavík: Amanda Akalu Iluabeshan Okodugha 19/9 fráköst, Danielle Victoria Rodriguez 18/6 fráköst/6 stoðsendingar, Elma Dautovic 15/6 fráköst, Hulda Björk Ólafsdóttir 13, Hekla Eik Nökkvadóttir 8/6 fráköst, Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir 3, Alexandra Eva Sverrisdóttir 2/5 fráköst.
Fráköst: 23 í vörn, 12 í sókn.
Dómarar: Stefán Kristinsson, Gunnlaugur Briem, Einar Valur Gunnarsson.