„Það getur allt gerst en við erum líka svo rosalega nálægt þessu að vera í hópi tólf bestu þjóða Evrópu sem fara á HM í Asíu í haust. Ég viðurkenni alveg að mig langar þetta rosalega mikið,“ segir Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ.
„Þetta er einn leikur sem getur brugðið til beggja vona og þar af leiðandi vil ég líka segja það að sama hvernig fer í kvöld er ég rosalega stoltur af strákunum okkar og íslenskum körfubolta og af þeim stað sem við erum komin á en tilfinningarnar eru miklar. Fyrst og fremst eigum að njóta dagsins í dag.“
Georgía og Ísland mætast í lokaumferð undankeppni heimsmeistaramóts karla í körfuknattleik í Tbilisi í Georgíu klukkan 16.
Georgía er með 10 stig eftir níu umferðir en Ísland er með 8 stig. Íslenska liðið þarf að vinna leikinn með fjögurra stiga mun til að komast uppfyrir Georgíumenn og tryggja sér sæti í lokakeppni heimsmeistaramótsins í fyrsta skipti.
Íslenska liðið kom til Georgíu eftir langt og erfitt ferðalag í gærmorgun. Liðið flaug með áætlunarflugi til Frakklands og þaðan til Georgíu.
„Það hefði verið frábært að geta tekið leiguflug eins og aðrar þjóðir gera. Ég held að hinn almenni áhorfandi heima á Íslandi átti sig kannski ekki á að við erum ekki að ferðast á sama máta og aðrir,“
„Isavia og Icelandair gerðu það sem þeir gátu til að auðvelda okkur hlutina en ég held að fólkið heima átti sig stundum ekki á því að leikmenn og aðrir í kringum þetta leggja mikið á sig fyrir land og þjóð til að spila svona leiki og taka þátt í svona mótum. Það er ekki bara bundið við körfubolta það á við um allar íþróttir.“
Það bjuggust fáir við því að Ísland myndi aftur komast á stórmót í körfubolta eftir að íslenska liðið lék á EuroBasket árið 2015. Liðinu tókst þó að komast aftur á EuroBasket árið 2017 og nú er liðið einum sigri frá því að komast inn á sjálft heimsmeistaramótið í körfubolta.
Mbl.is spurði Hannes að því hvað hreyfingin hefur verið að gera til að ná þessum árangri.
„Við fáum endalaust spurningar frá öðrum þjóðum um hvað við erum að gera og hvað sé í gangi í íslenskum körfubolta. Á leikinn gegn Spáni í vikunni kom fulltrúi frá FIBA til að veita viðurkenningu á því starfi sem við erum að vinna í körfuboltanum hér á Íslandi.
Bara síðasta árið miðað við stigalista FIBA eru íslensku strákaliðinu okkar U16, U18 og U20 í 16. sæti af 52 þjóðum í Evrópu. Síðustu fimm ár eru strákarnir númer 22 af 52 þjóðum og stelpurnar númer 26.
Framtíðin er sannarlega björt hjá strákum, stelpum, konum og körlum. Ég held að fólk átti sig ekki nægilega vel á þessu.“
Vegna þess segir Hannes að KKÍ sé svolítið svekkt yfir því að ÍSÍ viðurkenni ekki nægilega íslenskan körfubolta.
„Við erum svekkt yfir því að fá ekki viðurkenningu frá ÍSÍ fyrir það sem við erum að gera með því að sambandið hafi verið sett niður í svo kallað B-samband.“
Hannes segir marga þætti hafa spilað vel saman til að koma körfuboltanum á þennan stað.
„Við erum heppin með góða þjálfara. Við höfum mikinn metnað fyrir starfinu inn í félögunum, bæði hvað varðar þjálfun og foreldrastarf. Það er svo margt sem við erum að gera vel.
Við erum líka mjög heppin hvað varðar íþróttaumhverfið á Íslandi. Við erum með góða aðstöðu heilt yfir þó við viljum alltaf betri aðstöðu.
Þá erum við með það innprentað í okkur sem íslensk þjóð að við getum allt. Við erum ekki hrædd, við þorum að láta okkur dreyma og við þorum að láta finna fyrir okkur.“
Hannes segir þessi persónueinkenni vera mjög íslensk.
„Þetta er íslenska þjóðin sem við erum og það er það sem við erum að gera og það sem íslenskur körfubolti er að gera. En númer eitt, tvö og þrjú er það góðu starfi félaganna og sjálfboðaliðanna, sem leggja á sig mikla vinnu alla daga til að láta körfubolta starfið ganga, að þakka hvert körfuboltinn er kominn.
Við trúum og þorum að vinna áfram í því sem við erum að gera og það er ástæða þess að við erum að ná svona langt og svo íslenska vatnið með.“