„Við eigum að njóta dagsins“

Tryggvi Snær Hlinason var öflugur í leiknum gegn Spáni á …
Tryggvi Snær Hlinason var öflugur í leiknum gegn Spáni á fimmtudaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er bara þannig dagur að það eru allir heilir. Menn leggja allt annað til hliðar í dag,“ segir Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, í samtali við mbl.is í aðdraganda úrslitaleiks Íslands og Georgíu um sæti á HM í körfubolta.

Ísland er tveimur stigum á eftir Georgíu í fjórða sæti riðilsins og þarf að sigra í Tíblisi með að minnsta kosti fjórum stigum en innbyrðis viðureignir liðanna telja.

„Strákarnir okkar í sjúkraþjálfarateyminu eru búnir að vera duglegir þennan stutta tíma sem við höfum haft hér í Georgíu.

Haukur Helgi er að koma úr meiðslum, Elvar hafði lent í smá hnjaski og Kristófer var tæpur. Þess vegna voru þeir hvíldir í leiknum gegn Spáni en það eru allir klárir í dag.“

Risastórt afrek

Hannes segir ótrúlegt að vera á þessum stað.

„Að vera að spila um lausa sætið á HM er algjörlega magnað. Það er mikil stemning fyrir leiknum og löngu uppselt á hann.

Georgía er mun stærri þjóð en við körfuboltalega séð en þetta er samt ein af smærri þjóðunum sem tekur þátt. Að þessar tvær þjóðir eigi möguleika á HM er bara frábært.“

Að vera í þessum leik segir Hannes einfaldlega vera risastórt afrek.

„Að við séum í þessu tækifæri í einni stærstu íþróttagrein í heimi er bara magnað fyrir íslenskan körfubolta, íslenskar íþróttir og íslenska þjóð.“

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ.
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ. Eggert Jóhannesson

Hannes segir þema dagsins eiga að vera að njóta.

„Við eigum að njóta dagsins. Leikmenn eiga að njóta þess að spila leikinn, við sem erum í kringum sambandið eigum að njóta augnabliksins og hinn almenni körfuboltaáhugamaðaur á að njóta þess í dag að Ísland sé á þeim stað að vera að spila um sæti á HM.

Sama hvort við erum í íþróttahúsinu eða heima að horfa á leikinn eigum við að njóta augnabliksins að Ísland eigi möguleika á að komast á HM í körfubolta. Við eigum að njóta og senda strákunum góðar kveðjur.“

Kári Jónsson í háloftunum.
Kári Jónsson í háloftunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert