Þjálfarateymið leggur á sig óbærilega vinnu

Baldur Þór Ragnarsson aðstoðarþjálfari og Craig Pedersen þjálfari.
Baldur Þór Ragnarsson aðstoðarþjálfari og Craig Pedersen þjálfari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrátt fyrir vonbrigðin sem fylgdu því að ná ekki að tryggja sér sæti á HM 2023 er íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik hvergi af baki dottið.

Einungis einu stigi og einu skoti mátti muna að Ísland kæmist á heimsmeistaramót í fyrsta skipti í 80:77-sigri á Georgíu í gær en næst á dagskrá er forkeppni fyrir Ólympíuleikana í París 2024 og fer hún fram í sumar.

Samningur Craigs Pedersens landsliðsþjálfara gildir fram yfir lokakeppni Evrópumótsins árið 2025, EuroBasket, og verður honum ásamt aðstoðarþjálfurum sínum, þeim Hjalta Þór Vilhjálmssyni og Baldri Þór Ragnarssyni, falið það verkefni að freista þess að koma liðinu á þriðja Evrópumótið í sögu liðsins.

Öllum árum verður róið í þá átt enda mikil og góð eining innan íslenska liðsins.

„Ég held að það sem standi upp úr sé hversu frábær hópur stendur að þessu. Leikmennirnir, þjálfarateymið og annað starfsfólk í kringum liðið. Við eigum stórkostlega leikmenn sem gefa sig alltaf í öll verkefni.

Fólk gerir sér oft ekki grein fyrir því hvað leikmenn leggja mikið á sig til að taka þátt í þessum verkefnum. Þeir eru tilbúnir í allt til að spila fyrir land og þjóð,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður, KKÍ, í samtali við mbl.is er hann var spurður hvað stæði upp úr eftir um þriggja ára undankeppni fyrir HM.

Hannes Sigurbjörn Jónsson, formaður KKÍ.
Hannes Sigurbjörn Jónsson, formaður KKÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hannes hrósaði einnig teyminu í kringum landsliðið í hástert.

„Þjálfarateymið er að leggja á sig óbærilega vinnu sem sést ekki utan frá. Sjúkraþjálfarateymið og teymið okkar í kringum sambandið. Þetta er öflugt teymi, sem inniheldur ekki marga, þar sem allir hafa trú á verkefninu og vilja berjast fyrir íslenskan körfubolta,“ sagði hann.

Nánar er rætt við Hannes á íþróttasíðum Morgunblaðsins á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert