LA Lakers hefur orðið fyrir miklu áfalli þar sem stærsta stjarna liðsins, LeBron James, meiddist á ökkla í sigri liðsins á Dallas Mavericks í NBA-deildinni í körfuknattleik á sunnudagskvöld og verður að öllum líkindum frá keppni í margar vikur vegna meiðslanna.
James meiddist í þriðja leikhluta gegn Dallas en kláraði þrátt fyrir það leikinn.
Samkvæmt heimildum The Athletic eru meiðslin það alvarleg að þau munu halda James frá keppni í nokkrar vikur, þó Lakers muni leita álits sem flestra sérfræðinga.
James sér því fram á að missa af fjölda leikja, sem kemur sér afar illa fyrir Lakers í baráttu sinni um að ná sæti í úrslitakeppni Vesturdeildarinnar, þar sem liðið er í 12. sæti sem stendur.
Sex efstu liðin fara beint í úrslitakeppnina en liðin í 7. til 10. sæti keppast um tvö sæti til viðbótar í umspili.