Stærsta stjarnan ökklabrotnaði

LaMelo Ball.
LaMelo Ball. AFP/Jacob Kupferman

LaMelo Ball, lykilmaður Charlotte Hornets í NBA-deildinni í körfuknattleik karla, varð fyrir því óláni að ökklabrotna í leik liðsins gegn Detroit Pistons í nótt.

Ball, sem er stærsta stjarna liðsins og hefur leikið afar vel á tímabilinu, meiddist á hægri ökkla þegar enginn mótherji var nálægt honum í þriðja leikhluta.

Charlotte vann leikinn að lokum 117:106 og leiddi röntgenmyndataka að honum loknum í ljós að ökklinn væri brotinn.

Vinstri ökkli Ball hefur verið til vandræða á tímabilinu, en hann hefur snúið þrisvar upp á hann og því aðeins getað leikið 36 leiki í NBA-deildinni til þessa, þó hann láti ávallt vel að sér kveða þegar hann er leikfær.

Leikirnir verða væntanlega ekki fleiri þar sem Charlotte á litla sem enga von um að komast í úrslitakeppni NBA og 19 leikir eru eftir af deildakeppninni.

Því má teljast ólíklegt að Ball verði hraðað til baka á völlinn áður en tímabilið er úti hjá Charlotte.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert