„Þetta er búið að vera heljarinnar ferðalag, við byrjuðum í forkeppnum fyrir forkeppnir og svo unnum við okkur stöðugt upp. Við erum búnir að vera í alls konar Covid-búbblum og hitt og þetta. Þetta er búið að vera mikið ævintýri.
Þetta er líka búinn að vera mikill og sannkallaður lærdómur. Það var virkilega ánægjulegt að vera í þeirri stöðu að spila þennan úrslitaleik um sæti á HM. Þetta er risastórt afrek fyrir íslenskan körfubolta.
Ef einhver hefði sagt við okkur fyrir þremur árum, þegar þetta ferðalag byrjaði, að þetta yrði niðurstaðan, að við værum að fara að spila hreinan úrslitaleik um sæti á HM og yrðum bara einu stigi og einu skoti frá því, þá hefðum við ekki trúað því sjálf.
Það er mjög erfitt að komast á HM í körfubolta í einni stærstu íþróttagrein í heimi. Það er leiðinlegt þegar maður þarf sjálfur að benda á það en það er bara staðreynd,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, KKÍ, í samtali við Morgunblaðið eftir að íslenska karlalandsliðið var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti á HM 2023 á sunnudag.
Liðið vann þá Georgíu með þremur stigum en hefði þurft að vinna með fjórum stigum eða meira til þess að tryggja sér sæti á heimsmeistaramóti í fyrsta sinn. Fór lokaskot Elvars Más Friðrikssonar forgörðum á lokasekúndunum.
Viðtalið við Hannes má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.