Ef íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik hefði tryggt sér sæti í lokakeppni heimsmeistaramótsins um síðustu helgi hefði það verið neðsta lið Evrópu á heimslista FIBA til að komast þangað.
Ísland er í 49. sæti listans, í 26. sæti meðal Evrópuþjóða, en nú eru Georgíumenn, sem sluppu áfram með þriggja stiga tapi gegn Íslandi í Tblisi, neðsta Evrópuþjóðin sem komst á heimsmeistaramótið en það hefst 25. ágúst í Japan, Indónesíu og Filippseyjum. Lið Georgíu er í 32. sæti.
Bandaríkin, Serbía og Brasilía voru á meðal stórþjóða í körfuboltanum sem tryggðu sér sæti á heimsmeistaramóti karla 2023 á lokasprettinum um síðustu helgi.
Brasilíumenn náðu sjöunda og síðasta sæti Ameríku í lokakeppninni með því að vinna frækinn sigur á Bandaríkjunum, 83:76, í lokaumferðinni. Sá sigur þýddi að Argentínumenn, sem eru í fjórða sæti heimslista FIBA, sitja heima þegar HM hefst í Austur-Asíu 25. ágúst og eru sterkasta þjóðin sem ekki náði að vinna sér inn keppnisrétt á þessu heimsmeistaramóti.
Auk Argentínu eru Tékkland, Pólland, Tyrkland og Nígería sterkustu þjóðirnar, miðað við heimslista, sem sitja heima þegar HM fer fram en þessar þjóðir eru í 12., 14., 16. og 19. sæti listans.
Grænhöfðaeyjar eru hins vegar lægst skrifaða þjóðin sem leikur á HM en afríska eyþjóðin er í 66. sæti heimslistans, þremur sætum á eftir öðrum fulltrúa Afríku á HM, Suður-Súdan, sem er í 63. sætinu. Egyptaland er í 55. sæti og þessar þrjár þátttökuþjóðir af þeim sem leika á HM 2023 eru neðar en Ísland á listanum.
Fjórar þjóðir leika á HM í fyrsta skipti en það eru Lettland, Georgía, Suður-Súdan og Grænhöfðaeyjar.
Umfjöllunina má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.