Brooklyn Nets vann frábæran endurkomusigur á Boston Celtics, 115:105, þegar liðin áttust við í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.
Í fyrri hálfleik virtist fátt benda til annars en að Boston myndi hafa þægilegan sigur enda staðan orðin 51:23 snemma í öðrum leikhluta.
Þrátt fyrir 28 stiga mun gafs Brooklyn ekki upp, sneri taflinu við svo um munaði og náði mest 16 stiga forskoti, 106:90, þegar skammt var eftir af leiknum.
Boston lagaði stöðuna aðeins en mátti að lokum sætta sig við tíu stiga tap.
Mikal Bridges, sem kom nýverið til Brooklyn frá Phoenix Suns í skiptipakka fyrir Kevin Durant, skoraði 38 stig og tók tíu fráköst.
Annar fyrrverandi leikmaður Phoenix sem var einnig hluti af þessum pakka, Cam Johnson, bætti við 20 stigum fyrir Brooklyn.
Stigahæstur í liði Boston var Jaylen Brown með 35 stig. Jayson Tatum bætti við 22 stigum og tók 13 fráköst.
Öll úrslit næturinnar:
Boston – Brooklyn 105:115
Charlotte – Orlando 106:117
Atlanta – Portland 129:111
Miami – New York 120:122
Chicago – Phoenix 104:125
Oklahoma – Utah 130:103
Denver – Memphis 113:97
Golden State – New Orleans 108:99
Sacramento – LA Clippers 128:127
LA Lakers – Minnesota 102:110