Stærstu stjörnur Phoenix Suns og Dallas Mavericks létu svo sannarlega til sín taka þegar liðin áttust við í NBA-deildinni í körfuknattleik í gærkvöldi.
Leiknum lauk með 130:126-sigri Phoenix.
Kevin Durant skoraði 37 stig og tók sjö fráköst fyrir Phoenix og liðsfélagi hans Devin Booker bætti við 36 stigum og tíu stoðsendingum.
Hjá Dallas skoraði Luka Doncic 34 stig og bætti við níu fráköstum. Kyrie Irving skoraði þá 30 stig og gaf sjö stoðsendingar.
Í nótt vann New York Knicks svo frábæran sigur á Boston Celtics eftir tvöfalda framlengingu.
Immanuel Quickley var stigahæstur hjá New York með 38 stig og bætti við átta fráköstum og sjö stoðsendingum.
Liðsfélagi hans Julius Randle skoraði 31 stig og tók níu fráköst. R.J. Barrett var svo með 29 stig og 11 fráköst.
Stigahæstur í leiknum var hins vegar Jayson Tatum með 40 stig og 11 fráköst fyrir Boston.
Samherji hans Jaylen Brown bætti við 29 stigum og átta fráköstum.
Öll úrslit gærkvöldsins og næturinnar:
Dallas – Phoenix 126:130
Boston – New York 129:131 (2x frl.)
Oklahoma – Utah – 129:119
Houston – San Antonio 142:110
Washington – Milwaukee 111:117
LA Clippers – Memphis 135:129