Birna Valgerður Benónýsdóttir fór á kostum fyrir Keflavík þegar liðið heimsótti Hauka í toppslag úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik, Subway-deildarinnar, í Ólafssal í Hafnarfirði í 24. umferð deildarinnar í kvöld.
Leiknum lauk með stórsigri Keflavíkur, 85:64, en Birna skoraði 30 stig í leiknum ásamt því að gefa tvær stoðsendingar.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og var staðan 40:32, Keflavík í vil í hálfleik. Hafnfirðingar skoruðu einungis tíu stig gegn 27 stigum Keflavíkur í þriðja leikhluta og leikurinn var svo gott sem búinn að þriðja leikhluta loknum.
Daniela Wallen skoraði 24 stig, tók 14 fráköst og gaf sex stoðsendingar fyrir Keflavík en Lovísa Björt Henningsdóttir var stigahæst hjá Haukum með 16 stig og þrjú fráköst.
Keflavík er með 42 stig í efsta sæti deildarinnar en Haukar eru í þriðja sætinu með 38 stig.