Stjarnan hafði betur gegn Breiðabliki, 112:97, þegar liðin áttust við í Subway-deild karla í körfuknattleik í Garðabæ í kvöld. Sigurinn þýðir að KR, sem etur nú kappi gegn ÍR, er fallið niður í 1. deild.
Stjarnan hóf leikinn með miklum látum og leiddi með 20 stigum, 37:17, að loknum fyrsta leikhluta.
Blikum tókst aðeins að laga stöðuna í öðrum leikhluta en forystan var þó enn góð, 60:48, í hálfleik.
Stjarnan leiddi með 18 stigum, 86:68, að loknum þriðja leikhluta og útlitið var því gott fyrir heimamenn.
Breiðablik hóf fjórða leikhluta á því að klóra í bakkann með því að skora úr þremur þriggja stiga körfum í röð og staðan var þá orðin 89:80.
Stjarnan náði þá aftur vopnum sínum og niðurstaðan að lokum var þægilegur 15 stiga sigur.
Stjarnan er nú með 16 stig og þrátt fyrir að botnlið KR geti enn jafnað Hött að stigum, sem er með 14 stig í 10. sæti, stendur Höttur betur að vígi í innbyrðis viðureignum liðanna.
Því mun KR leika í næstefstu deild á næsta tímabili. Vesturbæjarfélagið er síðasta félagið til þess að falla úr efstu deild þar sem það var það eina sem hefur aldrei leikið utan hennar.
Í leiknum í kvöld fór William Gutenius fyrir Stjörnunni þar sem hann skoraði 29 stig og tók átta fráköst. Adama Darboe bætti við 28 stigum og níu stoðsendingum.
Stigahæstur í leiknum var hins vegar Everage Richardson með 30 stig fyrir Breiðablik. Jeremy Smith bætti við 28 stigum.
Umhyggjuhöllin, Subway deild karla, 09. mars 2023.
Gangur leiksins: 12:4, 24:8, 30:12, 37:17, 47:25, 55:33, 56:39, 60:48, 72:53, 77:61, 82:67, 86:68, 89:80, 98:82, 104:85, 112:97.
Stjarnan: Niels Gustav William Gutenius 29/8 fráköst, Adama Kasper Darbo 28/5 fráköst/9 stoðsendingar, Armani T´Bori Moore 16/11 fráköst, Júlíus Orri Ágústsson 14/6 fráköst/6 stoðsendingar, Dagur Kár Jónsson 10, Hlynur Elías Bæringsson 9/8 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 6.
Fráköst: 33 í vörn, 9 í sókn.
Breiðablik: Everage Lee Richardson 30/5 fráköst/5 stoðsendingar, Jeremy Herbert Smith 28/5 fráköst, Danero Thomas 14/5 fráköst, Julio Calver De Assis Afonso 13/12 fráköst, Sigurður Pétursson 6, Árni Elmar Hrafnsson 3, Clayton Riggs Ladine 3.
Fráköst: 24 í vörn, 8 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Stefán Kristinsson, Ingi Björn Jónsson.