Martin snýr aftur gegn Real Madrid

Martin Hermannsson í leik með Valencia síðasta vor.
Martin Hermannsson í leik með Valencia síðasta vor. Ljósmynd/Valencia Basket

Martin Hermannsson landsliðsmaður í körfuknattleik getur í kvöld leikið sinn fyrsta leik í 282 daga þegar lið hans, Valencia, sækir heim Real Madrid í sannkölluðum stórleik spænsku liðanna í Euroleague, sterkustu keppni Evrópu.

Martin sleit krossband í hné í leik með Valencia gegn Baskonia í úrslitakeppninni um spænska meistaratitilinn 31. maí síðasta vor og hefur verið í endurhæfingu síðan. Hann hóf æfingar á ný með liðinu fyrir skömmu og sagði við mbl.is í dag að nú gæti verið komið að því að hlaupa inn á völlinn á ný.

„Ég er alla vega í hópnum í kvöld og svo kemur annað bara í ljós. Ég er búinn að leggja mikið á mig síðustu níu mánuðina og verð betri með hverjum deginum sem líður. Auðvitað er ég ekki í neinu 100 prósent formi enn þá og það vantar enn þá leikformið en ég mun nálgast það smám saman. Spenningurinn mun líka halda mér gangandi,“ sagði Martin við mbl.is.

Nýr samningur síðasta sumar

Þrátt fyrir alvarleg meiðsli bauð Valencia Martin nýjan samning síðasta sumar, til tveggja ára, og hann er því samningsbundinn til sumarsins 2024. Hann kom til spænska félagsins frá Alba Berlín sumarið 2020.

Valencia er í 10. sæti af 18 liðum í Euroleague þegar leiknar hafa verið 27 umferðir af 34 og er í gríðarlega tvísýnni baráttu um að komast í átta liða úrslit keppninnar. 

Olympiacos er með 38 stig, Barcelona 36, Real Madrid 36, Mónakó 34, Fenerbahce 32, Partizan Belgrad 30, Baskonia 30 og Maccabi Tel Aviv 28 í átta efstu sætunum.

Síðan koma Zalgiris Kaunas með 28 stig, Valencia 26, Anadolu Efes 26, Virtus Bologna 24 og Rauða stjarnan 24 í næstu sætum þar á eftir.

Í spænsku ACB-deildinni er Valencia í svipaðri baráttu um að komast í úrslitakeppnina en þar er liðið í áttunda sæti af átján þegar 21 umferð hefur verið leikin af 34.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert