Morant sleppur við ákæru

Ja Morant í leik með Memphis Grizzlies á tímabilinu.
Ja Morant í leik með Memphis Grizzlies á tímabilinu. AFP/Tim Nwachukwu

Bandaríska körfuboltastjarnan Ja Morant verður ekki ákærður af lögreglunni í Glendale í Colorado-fylki fyrir vopnaburð á næturklúbbi vegna ónægra sönnunargagna.

Morant, sem leikur með Memphis Grizzlies, sendi út í beinni útsendingu á Instagram-aðgangi sínum þegar hann var staddur á næturklúbbi í Glendale, skammt frá Denver, á laugardagskvöld. Þar virtist hann halda á byssu.

Fyrr um daginn hafði Memphis tapað fyrir Denver Nuggets, 97:113, í NBA-deildinni.

Morant baðst fljótlega afsökunar á framferði sínu og kvaðst munu leita sér hjálpar.

Lögreglan rannsakaði málið en ákvað að aðhafast ekkert frekar í því að rannsókn lokinni.

Morant var úrskurðaður í tveggja leikja bann af NBA-deildinni á meðan deildin framkvæmir sína eigin rannsókn og Memphis hefur nú tilkynnt að hann verði ekki með liðinu í að minnsta kosti fjórum leikjum til viðbótar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka